fös 02.maí 2025 15:00 Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 1. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Fylkismönnum er spáð efsta sæti og beint upp.
Félög í Bestu deildinni vildu fá Ragnar Braga en hann er áfram í Fylki.
Mynd/Fótbolti.net - Hulda Margrét
Eyþór Aron Wöhler gekk í raðir Fylkis fyrir stuttu. Skemmtikraftur innan sem utan vallar.
Mynd/Fótbolti.net - Hulda Margrét
1. Fylkir, 239 stig
2. Keflavík, 217 stig
3. HK, 204 stig
4. Þróttur R., 166 stig
5. Þór, 152 stig
6. Njarðvík, 136 stig
7. ÍR, 112 stig
8. Grindavík, 101 stig
9. Leiknir R., 100 stig
10. Fjölnir, 82 stig
11. Selfoss, 49 stig
12. Völsungur, 24 stig
1. Fylkir
Þjálfarar og fyrirliðar Lengjudeildarinnar spá því að Fylkir verði liðið sem fari beint upp úr deildinni í sumar. Fylkismenn féllu úr Bestu deildinni í fyrra en Árbæjarfélagið hefur verið mikið að flakka á milli efstu og næst efstu deildar síðustu árin. Þegar þeir hafa verið í næst efstu deild þá hafa þeir nú yfirleitt ekki stoppað lengi og það er reiknað með því að sú verði niðurstaðan aftur í ár. Fylkir hefur gengið í gegnum breytingar í vetur og er kominn nýr og spennandi þjálfari í brúnna. Það hefur gengið vel hjá liðinu á undirbúningstímabilinu og er alveg hægt að reikna með því að þeir appelsínugulu úr Árbænum muni gera fína hluti í sumar.
Þjálfarinn: Það myndaðist ákveðinn hiti hjá stuðningsmönnum ÍR þegar Árni Freyr Guðnason var ráðinn þjálfari Fylkis í vetur. Árni kom ÍR upp úr 2. deild og frábæra hluti með liðið í fyrra þegar það komst í umspil Lengjudeildarinnar. Eftir tímabilið ákvað hann hins vegar að hætta í Breiðholtinu og færði sig yfir í Árbæinn. Þetta voru stuðningsmenn ÍR ekki ánægðir með og má búast við skemmtilegum leikjum á milli þessara liða í sumar. Árni er gríðarlega spennandi þjálfari en hann var áður yfirþjálfari yngri flokka hjá uppeldisfélagi sínu, FH. Hann þekkir vel til hjá Fylki enda spilaði hann tvö tímabil með liðinu, árin 2012 og 2013. Þar skoraði hann 4 mörk í 26 leikjum í deild- og bikar.
Álit Badda
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiga að vinna þessa deild
„Fylkismenn koma á miklu flugi með miklar væntingar inn í þetta mót, Fylkir er svona félag sem er of stórt fyrir B deildina en samt alltaf í vandræðum með að festa rætur í efstu deild."
„Mér finnst hópurinn sterkari en í fyrra sem er rosalega sterkt fyrir þá og holningin á liðinu í vetur hefur verið mjög góð fyrir utan það að þeir misstu hausinn á Skaganum gegn Kára, sem er svosem ekker skrýtið heldur."
„Fylkismenn eiga að vinna þessa deild og ég reikna með að þeir geri það."
Leiðin úr Lengjunni er hlaðvarpsþáttur tileinkaður næst efstu deild karla í fótbolta. Þáttarstjórnendur eru Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson og Sölvi Haraldsson. Þeir velja tvo lykilmenn og einn sem gaman verður að fylgjast með úr hverju liði í Lengjudeildinni.
Lykilmenn: Ragnar Bragi Sveinsson og Eyþór Aron Wöhler
Ragnar Bragi er klárlega einn besti og mikilvægasti leikmaður deildarinnar. Fyrirliðinn í Árbænum hefur haldið miklu trausti við Fylki og ætlar að sjá til þess að Árbæingar stoppa stutt í Lengjudeildinni. Ragnar Bragi er sannur fyrirliði og leiðtogi. Árbæingar binda miklar vonir til Eyþórs sem hefur átt flott undirbúningstímabil með Fylkismönnum. Eyþór þarf að eiga gott tímabil ef stoppið á að vera stutt í Lengjudeildinni hjá Fylki.
Gaman að fylgjast með: Theodór Ingi Óskarsson
Verður líklega í byrjunarliði Fylkis í sumar og er gífurlega spennandi og skemmtilegur leikmaður. Theodór er fæddur árið 2006 og á 26 meistaraflokksleiki að baki með Fylki og 5 mörk. Hann hefur komið við sögu í þremur U19 leikjum og verður skemmtilegur í sumar.
Komnir:
Eyþór Aron Wöhler frá KR
Bjarki Steinsen Arnarsson frá FH
Pablo Aguilera Simon frá Bandaríkjunum
Tumi Fannar Gunnarsson frá Breiðabliki á láni
Farnir:
Ómar Björn Stefánsson í ÍA
Stefán Gísli Stefánsson í Val
Þórður Gunnar Hafþórsson í Aftureldingu
Matthias Præst í KR
Guðmundur Rafn Ingason í Stjörnuna

Fyrstu þrír leikir Fylkis:
2. maí, Njarðvík - Fylkir (JBÓ völlurinn)
9. maí, Fylkir - Selfoss (tekk VÖLLURINN)
16. maí, Fjölnir - Fylkir (Egilshöll)
Athugasemdir