
„Tímabilið leggst vel í okkur og við hlökkum til að byrja deildina í dag þegar við förum í heimsókn til Fjölnis í Egilshöllina í fyrsta leik," segir Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Fótbolta.net.
Keflvíkingum er spáð öðru sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
Keflvíkingum er spáð öðru sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
„Nei myndi ekki segja að spáin komi mér eitthvað sérstaklega á óvart. Held að þetta sé nokkuð sanngjörn spá."
Vorum svo nálægt því í fyrra
Keflvíkingar voru ekki langt frá því að fara upp í Bestu deildina í fyrra en þeir töpuðu fyrir Aftureldingu í úrslitaleik umspilsins. Liðið byrjaði illa en endaði á því að vera bara einu stigi frá því að fara beint upp um deild.
„Já, tímabilið í fyrra var kaflaskipt þar sem við byjum mótið alls ekki vel og töpum tveimur fyrstu leikjunum í deildinni en erum að vinna leikina í bikarnum á sama tíma og svo er það ekki fyrr en í raun í seinni umferðinni sem við komumst á skrið og endum mótið einu stigi frá ÍBV og þar af leiðandi í umspili," segir Haraldur.
„Vinum svo ÍR í umspili og förum í úrslitaleik við Aftureldingu sem tapast 1-0. Ég held að menn séu gíraðir í að fara upp um deild í ár þar sem við vorum svo nálægt því í fyrra. Heilt yfir var tímabilið gott í fyrra þrátt fyrir að við förum ekki upp."
Það hefur gengið vel hjá Keflvíkingum í vetur og liðið er vel gírað í komandi mót.
„Veturinn heilt yfir hefur verið fínn hjá okkur og við spilað æfingaleiki og tekið þátt að sjálfsögðu í deildarbikarnum þar sem við vorum nálægt því að fara í undanúrslit. Svo fórum við í góða æfngaferð til Tenerife og höfum leikið tvo bikarleiki síðan við komum heim og náð að sigra þá báða."
Erum sáttir með þær flestar
Það hafa verið nokkrar breytingar gerðar á leikmannahópnum fyrir sumarið.
„Breytingar á hópnum eru þónokkrar og erum við sáttir með þær flestar, ekki endilega allar. Það eru margar og mismunandi ástæður fyrir breytingunum, einhverjir hætta, aðrir fara til baka eftir lán og svo eru einhverjir sem fá ekki samning áfram. En við erum nokkuð sáttir við hópinn eins og hann er núna þar en við erum alltaf með augun opin fyrir nýjum leikmönnum."
Segja má að Keflavíkurliðið hafi tekið generalprufu fyrir tímabilið með leik gegn Leikni í Mjólkurbikarnum á dögunum en sá leikur endaði með 1-0 sigri Keflavíkur.
„Leikurinn í bikarnum við Leikni var kaflaskiptur leikur og það sem við tökum helst út úr þeim leik er að við eru áfram í bikar. En að sjálfsögðu var margt jákvætt í okkar leik þar og líka fullt sem hægt er að laga," segir Haraldur.
Verði jöfn og spennandi
Keflavík er spáð öðru sæti en stefnir á að vinna deildina.
„Ég held að deildin verði jöfn og spennandi, mörg lið sem gera tilkall til þess að fara upp um deild. Ég sé ekki endilega eitthvað eitt lið stinga af."
„Markmiðin okkar eru að fara í alla leiki til að vinna þá og fara upp um deild," sagði þjálfari Keflvíkinga og bætti við að lokum:
„Okkur hlakkar til mótsins og vonandi getum við boðið uppá skemmtilegan fótbolta á HS orku vellinum. Við vonumst eftir að stuðningsmenn mæti á völlinn í sumar og styðji við bakið á liðinu."
Athugasemdir