„Það gekk helvíti vel í dag," sagði Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, eftir sigur gegn Grindavík í Lengjudeildinni. „Þetta var mjög flott hjá okkur."
Lestu um leikinn: Grindavík 0 - 3 Afturelding
Aron Elí, sem er vinstri bakvörður, var maður leiksins en hann skoraði bæði og lagði upp.
Afturelding spilaði mjög flottan fótbolta í leiknum, voru að halda vel í boltann og var annað mark liðsins sérstaklega flott þar sem þeir héldu vel í boltann áður en þeir skoruðu. Er Afturelding að horfa á einhver lið út í heimi til þess að læra af?
„Nei, það er ekkert þannig. Maggi (þjálfari Aftureldingar) er þekktur fyrir að vera höfundurinn að þessu og hann horfir á allan fótbolta í heiminum. Hann vill kenna okkur á æfingum eitthvað sem hann sér. Við erum kannski eitthvað að stela af betri liðum og setja inn í okkar leik."
Afturelding er að berjast á toppnum en liðið er í öðru sæti með 13 stig eftir fimm leiki. Fjölnir er með jafnmörg stig fyrir ofan en betri markatölu. Bjóst Aron við því að þetta myndi ganga svona vel á þessu tímabili?
„Við erum að okkar mati búnir að spila lengi vel en kannski smá óheppnir með úrslitin. Við fengum þannig bita í glugganum í vetur... og að við erum að fá fleiri leikmenn inn fyrr. Það er margt að smella sem gerir okkur að betra liði. Við erum betri núna en við höfum verið. Það er mikið eftir og við sjáum hvað gerist," sagði Aron en markmiðið hjá liðinu er að komast upp í Bestu deildina.
Athugasemdir