banner
   þri 02. ágúst 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mead og Oberdorf bestar á EM - Sjáðu lið mótsins
Mead hampaði titlinum ásamt Fran Kirby.
Mead hampaði titlinum ásamt Fran Kirby.
Mynd: EPA
Van Domselaar reyndist spútnik leikmaður mótsins.
Van Domselaar reyndist spútnik leikmaður mótsins.
Mynd: EPA
Karchaoui er vinstri bakvörður sem klæðist treyju númer 7.
Karchaoui er vinstri bakvörður sem klæðist treyju númer 7.
Mynd: EPA
Oberdorf var ótrúlega öflug fyrir framan þýsku varnarlínuna.
Oberdorf var ótrúlega öflug fyrir framan þýsku varnarlínuna.
Mynd: EPA
Enska landsliðskonan Bethany Mead hlaut nafnbótina besti leikmaður Evrópumótsins eftir að England lagði Þýskaland að velli í úrslitaleiknum um helgina.

Mead skoraði sex mörk og gaf fimm stoðsendingar á mótinu og var þar með markahæst. Alexandra Popp frá Þýskalandi skoraði einnig sex mörk en gaf færri stoðsendingar. Hún átti frábært mót en var gríðarlega óheppin að meiðast í upphitun fyrir úrslitaleikinn og missti af honum.

Mead var valin sem besti leikmaðurinn og Lena Oberdorf, 20 ára miðjumaður Þýskalands og Wolfsburg, valin sem besti ungi leikmaðurinn.

Oberdorf átti frábært mót og var valin í draumalið mótsins af Goal.com.

Markvörður: Daphne van Domselaar (Holland)
Van Domselaar bjóst ekki við því að verja mark Hollendinga á mótinu en henni var skipt inn eftir 22 mínútur þegar fyrirliðinn Sari van Veenedaal meiddist. Holland datt út í 8-liða úrslitum eftir 1-0 tap gegn Frakklandi. 

Hægri bakvörðurr: Ona Batlle (Spánn)
Batlle var frábær bæði varnarlega og sóknarlega og var meðal betri leikmanna spænska liðsins í naumu tapi gegn Englandi í 8-liða úrslitum mótsins.

Miðvörður: Millie Bright (England)
Bright var nákvæmlega miðvörðurinn sem Englendinga vantaði. Eins og óhagganlegur klettur í vörn og róleg og yfirveguð á boltanum þegar þarf að snúa vörn í sókn og með frábæra sendingagetu.

Miðvörður: Marina Hegering (Þýskaland)
Hegering var ótrúleg í hjarta varnarinnar hjá Þjóðverjum og reyndist sérstaklega mikilvæg gegn sterku liði Frakklands í undanúrslitum. Wendie Renard, varnarjaxl Frakka, kom einnig til greina ásamt Leah Williamson.

Vinstri bakvörður: Sakina Karchaoui (Frakkland)
Hin smávaxna Karchaoui var stórhættuleg fram á við auk þess að vera aggressív og einbeitt varnarlega. Svekkjandi fyrir hana að detta út gegn ógnarsterku liði Þjóðverja í undanúrslitum.

Miðjumaður: Keira Walsh (England)
Með frábæra sendingagetu og öflug varnarlega, Walsh var besti skapandi djúpi miðjumaður Evrópumótsins. Alltaf rétt staðsett varnarlega og tilbúin til að dreifa spili Englendinga og stjórna hraða leiksins.

Miðjumaður: Lena Oberdorf (Þýskaland)
Afar grimmur varnartengiliður sem gaf ekki einn einasta millimeter eftir á þessu Evrópumóti. Það voru fáir leikmenn sem komust framhjá Oberdorf sem var svo fljót að hugsa þegar átti að snúa vörn í sókn og leysti oft gífurlega vel úr erfiðum pressum.

Miðjumaður: Kosovare Asllani (Svíþjóð)
Óneitanlega besti leikmaður Svía á mótinu. Asllani var gríðarlega skapandi þar sem hún lék sér að varnarmönnum andstæðinga sinna. Hún labbaði oft framhjá andstæðingum sínum áður en hún gaf hnitmiðaðar sendingar á liðsfélagana sem komust alla leið í undanúrslitin á herðum hennar.

Hægri kantur: Bethany Mead (England)
Mead var valin besti leikmaður mótsins þar sem hún skoraði sex mörk og gaf fimm stoðsendingar. Hún knésetti Norðmenn og Svía upp á eigin spýtur og skoraði sigurmarkið gegn Austurríki.

Vinstri kantur: Mariona Caldentey (Spánn)
Annar leikmaður Spánverja sem sýndu flotta frammistöðu gegn Englandi í 8-liða úrslitunum eftir að hafa tapað líka fyrir Þýskalandi í riðlakeppninni. Caldentey var gríðarlega skapandi á mótinu og skapaði sífella hættu fyrir varnarlínur andstæðinganna.

Sóknarmaður: Alexandra Popp (Þýskaland)
Popp hefur verið óheppin í kringum Evrópumótið og var búin að missa af síðustu tveimur mótum vegna meiðsla. Loksins gat hún tekið þátt í ár, 31 árs gömul, og hún skein bjart. Hún byrjaði fyrsta leikinn gegn Dönum á bekknum en kom svo inn og skoraði strax. Hún skoraði í hverjum einasta leik eftir það, þar á meðal bæði mörkin í 2-1 sigri gegn Frökkum í undanúrslitum, en meiddist svo í upphitun fyrir úrslitaleikinn gegn Englandi. Óheppnin getur verið ótrúleg.


Athugasemdir
banner
banner
banner