
Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var í skýjunum með sigur sinna manna gegn Þór á Akureyri í dag. Sigurinn þýddi að Skagamenn eru komnir á toppinn í Lengjudeildinni.
Lestu um leikinn: Þór 2 - 3 ÍA
„Þetta er frábær sigur. Það var virkilega öflugt að koma hingað og ná í stigin þrjú. Mér fannst við byrja leikinn virkilega vel en eftir það gáfum við svolítið eftir en komumst aftur inn í leikinn. Eftir það var þetta hörku leikur. Við vissum að við fengjum tækifæri til að skora þriðja markið og þá er þetta bara spurning um að hafa gæðin og yfirvegunina til að klára það," sagði Jón Þór.
Skagamenn voru klárir í baráttu.
„Þetta var erfiður leikur og við vissum það eftir úrslitin í gær og þessar kringumstæður, að koma hingað og þrír leikir eftir og Þórsararnir ekki lengra frá fallsæti heldur en þetta þá ertu ekki að koma hingað í einhvern göngutúr. Þórsararnir spiluðu fínan leik, þetta var alltaf að fara verða hörku leikur," sagði Jón Þór.
„Við vorum undirbúnir fyrir það sem betur fer. Það sýndi sig í þessum leik, þú ferð ekki með sigur héðan ef þú ert ekki tilbúinn í þann slag sem mætir þér hérna á þessum heimavelli. Þórsarnir eru búnir að sýna það í allt sumar að það er gríðarlega erfitt að koma hingað og sækja sigur eða fá eitthvað út úr leikjunum."
Hlynur Sævar Jónsson fékk skurð á höfuðið undir lok leiksins en Jón Þór hafði litlar áhyggjur af sínum manni.
„Hlynur fór útaf í blálokin með skurð á höfðinu. Hann er farinn upp á sjúkrahús og láta sauma en sem betur fer ekki meira en það. Þetta er ekki fyrst og örugglega ekki síðasti skurðurinn sem Hlynur fær á sínum ferli. Hann átti frábæran leik í dag og við klárum það á sjúkrahúsinu á Akureyri."