Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 03. febrúar 2023 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Haddi Jónasar um nýju leikmennina: Prófíll sem við vorum að leita að
Hallgrímur og Pætur.
Hallgrímur og Pætur.
Mynd: KA
Ingimar Torbjörnsson Stöle.
Ingimar Torbjörnsson Stöle.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Kristoffer og Ingimar komu saman frá VIking.
Kristoffer og Ingimar komu saman frá VIking.
Mynd: KA
Harley Willard kom frá grönnunum í Þór.
Harley Willard kom frá grönnunum í Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Að sjálfsögðu erum við að spila við lið í neðri deildum, en það sem ég hef séð á undirbúningstímabilinu, ég er ánægður með það.
Að sjálfsögðu erum við að spila við lið í neðri deildum, en það sem ég hef séð á undirbúningstímabilinu, ég er ánægður með það.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
 Okkur vantaði þessa týpu. Núna erum við komnir með rosalega flottar og mismunandi týpur í liðið okkar.
Okkur vantaði þessa týpu. Núna erum við komnir með rosalega flottar og mismunandi týpur í liðið okkar.
Mynd: KSÍ
Við erum með breiðan hóp sem þarf að hafa því tímabilið er orðið lengra og við á leið í Evrópukeppni. Við ætlum okkur líka langt í bikar.
Við erum með breiðan hóp sem þarf að hafa því tímabilið er orðið lengra og við á leið í Evrópukeppni. Við ætlum okkur líka langt í bikar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA hefur fengið inn fjóra nýja leikmenn inn í leikmannahóp sinn frá því að síðasta tímabili lauk. Það eru þeir Harley Willard, Ingimar Torbjörnsson Stöle, Kristoffer Paulsen og Pætur Petersen. Þá endurheimtir félagið Birgi Baldvinsson úr láni.

Fótbolti.net ræddi í dag við Hallgrím Jónasson, þjálfara KA, og spurði hann út í nýju leikmennina.

Vantaði þessa týpu
Hvernig komst Pætur á radarinn hjá KA og hvernig hefur hann komið inn í hlutina fyrstu dagana á Íslandi?

„Hann hefur komið vel inn í þetta. Hann er í færeyska landsliðinu og er prófíll sem við vorum að leita að. Hann er fljótur og hleypur djúpt. Við misstum Nökkva sem er fljótur og áræðinn leikmaður. Okkur vantaði þessa týpu. Núna erum við komnir með rosalega flottar og mismunandi týpur í liðið okkar. Við erum með stráka sem finnst gott að fá boltann í lappir og spila á litlu svæði og erum komnir með nokkra sem eru beinskeyttari og góðir á stóru svæði."

„Við skoðuðum Pætur, hann fékk góð meðmæli og er mjög flottur leikmaður. Hann kom mjög vel inn á móti Breiðabliki, var bara búinn að taka tvær æfingar, skoraði frábært mark og var nálægt því að skora aftur. Hann var mjög hættulegur fram á við og sýndi okkur strax það sem við vorum að vonast eftir."


Sástu strax á fyrstu æfingu að þetta væri leikmaður sem myndi henta ykkur?

„Nei, við vorum ekki að spila á stóran völl og maður þarf að sjá meira en eina æfingu. En ég sá strax eiginleika í honum, hvernig hann hugsaði og hreyfði sig. Það var á flottu 'leveli'. Ég gerði mér grein fyrir því að hann væri góður leikmaður."

„Við erum með fullt af strákum fram á við sem eru góðir og hann dettur inn í þá samkeppni."


Frábært fyrir þá að geta komið og verið saman
Þeir Ingimar og Kristoffer eru báðir nítján ára og koma frá Viking í Noregi. Hvernig komu þeir upp á borðið hjá KA og pælingin að fá

„Maður þarf að hugsa um aldurssamsetninguna á liðinu. Nú erum við með nokkra stráka sem eru eldri og nokkra sem eru á miðjum aldri sem fótboltamenn, 24-25 ára, svo kemur smá gat þar á milli áður en það koma nokkrir efnilegir strákar hjá okkur. Okkur vantaði smá í þennan aldur."

„Annar þeirra, Ingimar, er Íslendingur sem búið hefur alla tíð í Noregi en verið smá á sumrin í Fjölni. Hann hefur verið í U19 liði Íslands. Hann þekkti til í þjálfarateyminu okkar, einn hérna sem hefur þjálfað hann. Þegar við fengum þær fregnir að það væri möguleiki að hann kæmi til Íslands fórum við og skoðuðum hann. Okkur leist vel á hann, strákur fæddur 2004 og við semjum við hann til þriggja ára. Vonandi er hann framtíðar leikmaður fyrir KA. Hann kemur rosalega vel fyrir og virkar rosalega vandaður strákur."

„Hinn, Kristoffer, er búinn að spila leiki fyrir yngri landslið Noregs. Hann er á samningi við Viking og við fáum hann á láni. Hann er kominn svolítið langt, er stór og sterkur strákur sem er góður á boltann. Við sáum þá báða spila á móti Bodö/Glimt um daginn og eftir það vorum við sannfærðir um að Kristoffer væri leikmaður sem gæti hjálpað okkur. Hann kemur á láni út tímabilið."

„Þeir koma saman, koma í flott lið á Íslandi og prófa að búa í öðru landi. Það er margt jákvætt við það að prófa að standa á eigin fótum í öðru landi."

„Við missum bakvörð í Bryan, Birgir kemur þar inn og Ingimar líka. Svo misstum við hafsentinn Gaber sem var skarð sem við þurftum að fylla. Af því sem ég hef séð hingað til er hann mjög flott 'replacement'."


Er tilviljun að þeir koma báðir frá Viking? Var ætlunin að fá Ingimar og sjáið svo möguleikann á því að fá Kristoffer?

„Við höfum verið að leita að hafsent lengi. Tilviljun og ekki tilviljun, við vorum að ræða við Viking og þeir benda á að þeir séu með strák sem þeir séu tilbúnir að lána. Það er tilviljun að við fréttum af honum en við fengum hann af því við vorum búnir að skoða hann og sáum að þetta var rétt skref fyrir okkur."

„Við vorum með aðra möguleika en við töldum þetta vera rétt. Þeir eru ennþá í 2. flokki þessir strákar og frábært fyrir þá að geta komið og verið saman, búið saman. Þá eru meiri líkur á því að þeim líði vel utan vallar sem er rosalega mikilvægt."


Ekki hugsunin að taka inn fleiri menn
Ef þú horfir á leikmannahóp KA, finnst þér þú þurfa að styrkja hann?

„Ég væri til í ellefu betri leikmenn en ég er með," sagði Haddi á mjög léttum nótum. „Nei nei, við erum með breiðan og góðan hóp. Við erum ekki að byrja á einhverju núlli eða í einhverri kynslóðaskiptingu. Við erum bara að halda áfram, félagið er búið að vaxa og undanfarin ár höfum við tekið flott skref. Ég hef verið partur af því, fyrst sem leikmaður, svo sem aðstoðarþjálfari og tók í fyrra við sem aðalþjálfari. Við erum bara að halda áfram, erum ánægðir með þennan sterka hóp, við erum á góðum stað og þar sem við höfum misst frá því í fyrra höfum við fengið inn menn í staðinn."

„Svo á eftir að koma í ljós hvort að þeir séu jafngóðir, verri eða betri en þeir sem voru. Við erum ánægðir núna og það er ekki hugsunin að taka inn fleiri menn eins og staðan er núna."

„Að sjálfsögðu erum við að spila við lið í neðri deildum, en það sem ég hef séð á undirbúningstímabilinu, ég er ánægður með það. Ég var ánægður með margt á móti Breiðabliki, þó að hvorugt liðið hafi verið með sitt allra sterkasta lið, þá sér maður margt þegar spilað er við lið sem er á háu tempói. Lengjubikarinn byrjar á morgun og þá sjáum við þetta ennþá betur."

„Við erum með breiðan hóp sem þarf að hafa því tímabilið er orðið lengra og við á leið í Evrópukeppni. Við ætlum okkur líka langt í bikar. Við þurfum að hafa stóran hóp af gæðaleikmönnum."


Strákur með gæði
Harley Willard kom frá nágrönnum KA, Þór, í vetur. Það vakti athygli fréttaritara að Harley skrifaði einungis undir eins árs samning. Harley er 25 ára gamall kantmaður sem hefur spilað á Íslandi í fjögur ár. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að samningurinn er ekki lengri?

„Ég er þjálfari og ætla svo sem ekki að blanda mér of mikið í hve langir samningar eru. Ég hef ekkert um það að segja. Ég er bara ánægður að Harley kom, þetta er strákur sem er með gæði, er búinn að gera rosalega vel í fyrstu deildinni; skoraði ellefu mörk og lagði upp sjö með Þór í fyrra. Ég er ekkert að spá í því hvað hann er með langan samning eða hvort ég velji menn í hóp eða liðið eftir því hvort þeir eigi fimm mánuði eftir eða átta ár."

„Ég er ánægður með hann, er búinn að vera aðeins óheppinn, fékk í bakið í byrjun - strákur sem hefur aldrei verið meiddur - hann er að skríða saman og er í hóp í fyrsta skiptið hjá mér á morgun,"
sagði Haddi að lokum.

Komnir
Birgir Baldvinsson frá Leikni (var á láni)
Harley Willard frá Þór
Ingimar Torbjörnsson Stöle frá Viking
Kristoffer Forgaard Paulsen á láni frá Viking
Pætur Petersen frá HB í Færeyjum

Farnir
Bryan Van Den Bogaert
Gaber Dobrovoljc
Hallgrímur Jónasson (orðinn þjálfari liðsins)
Nökkvi Þeyr Þórisson til Beerschot
Athugasemdir
banner
banner