Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mán 03. mars 2014 12:08
Magnús Már Einarsson
Andrés Már og Ragnar Bragi á leið í Fylki
Andrés Már Jóhannesson.
Andrés Már Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ragnar Bragi (til vinstri).
Ragnar Bragi (til vinstri).
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Andrés Már Jóhannesson og Ragnar Bragi Sveinsson eru báðir að ganga til liðs við uppeldisfélag sitt Fylki á nýjan leik.

Báðir leikmennirnir hafa verið í atvinnumennsku erlendis síðan sumarið 2011. Andrés Már hefur verið hjá Haugesund í Noregi á meðan Ragnar Bragi hefur verið í unglingaliði Kaiserslautern í Þýskalandi.

,,Við erum búnir að ná samkomulagi við þá báða og það er verið að ganga frá lausum endum úti. Þeir eru að öllu óbreyttu á leið í Fylki," sagði Ólafur Geir Magnússon í stjórn knattspyrnudeildar Fylkis við Fótbolta.net í dag.

Andrés Már er 25 ára miðju og kantmaður en hann lék með Fylki á láni hluta af síðasta tímabili. Ragnar Bragi er 19 ára kantmaður en hann á að baki leiki með yngri landsliðum Íslands.

,,Það er frábært að fá þessa stráka aftur heim," sagði Óli Geir.

,,Ragnar Bragi er yngsti leikmaðurinn sem hefur spilað með meistaraflokki Fylkis. Hann fór út mjög ungur og við væntum mikils af honum. Hann kemur betri heim. Við höfum fylgst með honum úti og hann hefur staðið sig vel."

,,Andrés Már átti stóran þátt í því að Fylkir rétti úr kútnum í fyrra ásamt öðrum mönnum. Það er mikill fengur að fá Adda. Við erum hoppandi kátir yfir því að þessir strákar séu á leið í Árbæinn. Það voru 63% heimamenn sem spiluðu með meistaraflokki Fylkis í fyrra og það verður ekki minna núna."


Fylkismenn eru ennþá í leit að liðsstyrk en þeir vilja fá framherja áður en keppni í Pepsi-deildinni hefst.

,,Það er ekkert launungarmál að við erum að leita að senter. Við misstum Viðar Örn (Kjartansson) og við erum að leita að senter. Við erum að líta í kringum okkur með það. Þegar það er komið þá erum við búnir að loka pakkanum," sagði Óli Geir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner