
„Bara svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr þessum leik það eru mín fyrstu viðbrögð," sagði Guðni Eiríksson þjálfari FH eftir 2-3 tap gegn Val í kvöld í Bestu deild kvenna.
„Ég met hann [leikinn] að FH hafi verið betri að svona mestum hluta. Betra liðið í fyrri hálfleik, betra liðið í upphafi seinni hálfleiks. Ógnum þeim og þrýstum þeim og áttum að komast í 1-0. Fáum mark í andlitið og ekki nógu ánægður með hvernig liðið brást við þar og fengum þá annað mark í kjölfarið. Það er eitthvað sem við þurfum að laga og það má ekki sjást aftur. En þó karakter að gefast ekki upp og gera tvö mörk í lokin, það vantaði bara aðeins fleiri mínútur til að koma jöfnunarmarkinu inn."
Lestu um leikinn: FH 2 - 3 Valur
Eftir þannig séð rólegan fyrri hálfleik var seinni hálfleikur fullur af fjöri þar sem Valur skorar þrjú mörk á um 16 mínútum og síðan stefndi í endurkomu þegar FH skoruðu tvö mörk á tveimur mínútur undir lok leiks.
„Svekkjandi að mínúturnar hafi ekki orðið fleiri sko, það er svolítið svoleiðis því mómentið var aftur kominn FH megin og við vorum farnar að liggja svolítið vel á þeim. En það er svolítið stór biti að vera 3-0 undir og reyna að jafna á skömmum tíma," sagði Guðni.
Nánar er rætt við Guðna í spilaranum hér fyrir ofan.