Hvað gerir Guardiola? - Laporta vill Haaland - Man Utd fylgist með Eze - Pogba hafnar rússnesku félagi
   fim 05. september 2024 14:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Laugardalsvelli
Enginn kallaður inn fyrir Hákon - „Verður frá í dágóðan tíma"
Icelandair
Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir er einnig fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
Sverrir er einnig fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson þurfti að draga sig úr landsliðshópnum í gær vegna meiðsla, en það eru gríðarlega svekkjandi tíðindi fyrir íslenska liðið.

Ísland mætir Svartfjallalandi á morgun og Tyrklandi á mánudaginn. Það eru fyrstu leikir liðsins í nýrri Þjóðadeild.

„Ég veit ekki hvað gerðist í rauninni. Hann fann fyrir verk á æfingu og fór í myndatöku. Þar sást að það var eitthvað í ólagi. Hann verður frá í dágóðan tíma," sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, á fréttamannafundi í dag.

„Það er synd fyrir Hákon, Lille og Ísland. Svona gerist en við þurfum bara að takast á við það. Við erum með hóp sem veit hvað við ætlum að gera og það er það mikilvægasta. Leikmaðurinn sem kemur inn í staðinn þarf að standa sig en hann er með allar upplýsingarnar. Það er alltaf sorglegt að missa leikmann en við verðum að halda áfram og við verðum að standa okkur."

Enginn leikmaður hefur verið kallaður inn fyrir Hákon og Hareide býst ekki við því að gera það.

„Við völdum 24 leikmenn í hópinn ef það myndu koma upp meiðsli. Við sjáum hvað gerist eftir leikinn á morgun, ef við missum fleiri leikmenn. Við erum með nóg af leikmönnunum núna," sagði Hareide.

Þetta er ekki sjokk fyrir mig
Tveir lykilmenn meiddust í aðdraganda leiksins. Ásamt Hákoni þá þurfti Sverrir Ingi Ingason að draga sig úr hópnum. Þeir eru tveir af mikilvægari leikmönnum hópsins.

„Þetta er ekki áfall fyrir mig, þetta er eðlilegt fyrir þjálfara. Landsliðsþjálfarar þurfa að bíða fram að síðasta leik sem leikmenn spila með félagsliði og krossa fingur. Þegar við erum með meiðsli, þá þurfum við að leysa það. Þótt við missum tvo góða leikmenn, þá erum við með leikmenn sem geta komið inn í staðinn. Þeir fá tækifæri til að sýna sig og vonandi gera þeir það á morgun," sagði Hareide.

„Það eru allir annars klárir. Sumir leikmenn hafa verið tæpir. Við erum að fara inn í tvo leiki og við verðum að vera með hóp sem getur tekist á við tvo leiki á þremur dögum. Sumir leikmenn eru að koma úr meiðslum og sumir hafa ekki spilað eins mikið og við vildum. Við verðum að fara varlega og finna lausnir til að spila tvo leiki á stuttum tíma. Við þurfum að vera með mikla orku í báðum leikjunum en það hefur verið eitt af okkar vandamálum."
Athugasemdir
banner
banner