Diaz, Salah, Gallagher, Jorginho, Greenwood, Cancelo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 05. desember 2019 11:00
Magnús Már Einarsson
Þjálfarar í Pepsi Max vilja fjölga leikjum - Misjafnar leiðir
Rúnar Kristins vill þrefalda umferð og hefja mótið snemma.
Rúnar Kristins vill þrefalda umferð og hefja mótið snemma.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Óskar Hrafn vill fækka í tíu lið og hafa úrslitakeppni eftir það.
Óskar Hrafn vill fækka í tíu lið og hafa úrslitakeppni eftir það.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Kristjáns vill prófa þrefalda umferð.
Óli Kristjáns vill prófa þrefalda umferð.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Rúnar Páll Sigmundsson vill fjölga í sextán lið.
Rúnar Páll Sigmundsson vill fjölga í sextán lið.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Óli Stefán vill fjölga í 14 eða 16 lið.
Óli Stefán vill fjölga í 14 eða 16 lið.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Heimir Guðjóns vill gervigrasvæða allt og fara í þrefalda umferð.
Heimir Guðjóns vill gervigrasvæða allt og fara í þrefalda umferð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugs vill þrefalda umferð eins og fleiri.
Arnar Gunnlaugs vill þrefalda umferð eins og fleiri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Talsverð umræða er í gangi þessa dagana um það hvernig má fjölga leikjum í Pepsi Max-deild karla. Fótbolti.net leitaði álits hjá þjálfurum í deildinni og þeir eru allir sammála um að fjölga leikjunum í deildinni.

Þjálfararnir komu með margar misjafnar leiðir til að fjölga leikjunum en hér að neðan má sjá þeirra skoðanir.

Spurningin sem þjálfararnir fengu
Ertu hlynntur fjölgun leikja á Íslandsmótinu? Ef já, hvaða útfærslu myndir þú vilja sjá í því samhengi?

Rúnar Kristinsson, KR
Ég er fylgjandi því að fjölga leikjum í deildinni. Mér hefur litist vel á þá hugmynd sem komið hefur fram að bæta við einni umferð og fjölga þannig leikjum úr 22 í 33. Hefja þá mót í lok janúar eða byrjun febrúar og leika heila umferð í höllunum eða jafnvel úti ef veður leyfði. Önnur umferð væri þá að hefjast um sama leyti og deildin gerir nú eða í lok apríl. Mótið væri þá að klárast á sama tíma og undanfarin ár eða í byrjun október.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, Breiðablik
Já, ég er hlynntur fjölgun leikja í efstu deild. Ég myndi vilja sjá fækkun í efstu deild niður í 10 lið með tvöfaldri umferð og síðan tvískiptum öðrum hluta þar sem fimm efstu liðin og fimm neðstu liðin spila heima og heiman. Liðin taka með sér annað hvort öll stigin úr fyrsta hluta eða helming. Með þessu fengjust 26 leikir á lið. Ég tel enga þörf á því að fjölga leikjum í neðri deildum - spurning hvort taka ætti upp play-offs um annað sæti í deildinni fyrir ofan en annars finnst mér 22 leikir vera nóg fyrir lið í neðri deildum.

Ólafur Kristjánsson, FH
Ég vil að leikjum í deildarkeppninni sé fjölgað og mótið lengt.
Fleiri leikir: Þýðir að hver leikur og hver einstök úrslit fá minna vægi. Möguleikar þeirra liða sem lenda í slæmu tímabundnu gengi hverfa ekki. Hver leikur er ekki á sama hátt upp á líf og dauða og þar af leiðandi gæti leikjum með "varfærnislegri nálgun" fækkað. Möguleikarnir á að nota yngri/óreyndari leikmenn verða fleiri, þar sem úrslit hvers einstaks leiks verða "þýðingarminni" og afsökunin, sem stundum er notuð, að leikurinn skipti "of miklu máli", verður erfiðara að nota. Fleiri keppnisleikir gefa meiri keppnisreynslu, sem er ungum leikmönnum dýrmæt.
Lengra mót: Með fleiri leikjum þá þarf að lengja mótið, byrja fyrr og enda á svipuðum tíma og nú, til að fá eðlilegan takt í keppnistímabilið. Leikmenn og þjálfarar eru víðast hvar á 12 mánaða samningum og því engin ástæða til að stærstur hluti þess tíma sé "undirbúningstími". Ef að íslensk félagslið eiga að eiga raunhæfan möguleika á að komast lengra, hvort sem er innanlands eða í evrópukeppnum, þá þarf að spila tímabil sem er nær því sem er spilað í löndunum í kringum okkur.

Það er enginn fullkominn leið til, en sú leið sem mér hugnast best núna og ég myndi vilja láta á reyna er: 12 liða deild, þreföld umferð. Spilað í höllum og á þeim völlum sem hafa knattspyrnugras. Fyrsta umferð (umferðir 1-11) spiluð frá miðjum febrúar til loka apríl, byrjun mai - Spilað í höllum og á þeim völlum sem hafa knattspyrnugras. Umferðir 2 og 3 spilaðar á sama tímabili og núverandi deildarkeppni.

Vegna oddatölu umferða og þar af leiðandi annaðhvort 2 heimaleikir eða 1 gegn sama félagi þá er það tæknilegt atriði sem má leysa á marga vegu. Þetta format mundi ég vilja sjá í 2-3 tímabil til reynslu og þar eftir geta menn dregið lærdóm af þeirri reynslu sem fæst.

Rúnar Páll Sigmundsson, Stjarnan
Að mínu áliti eigum við að spila Pepsi-deildina samhliða norsku úrvalsdeildinni - Fjölga í 16 lið. Byrja um miðjan mars og spila til enda nóvember. Gefa 2-3 vikur í sumarfrí í júlí. Gott er fyrir leikmenn af fá frí, því margir hverjir eru í 100% vinnu með og fjölskyldu.

Óli Stefán Flóventsson, KA
Ég er á því að fjölga leikjum en með hvaða móti er ég ekki viss um. Ein leiðin er að að fjölga liðum í 14-16. Þá erum við að fá 26-30 leiki yfir tímabilið. Ef við færum í 16 liða deild þá þarf að byrja í mars og spila hluta mótsins inni sem er í sjálfu sér ekkert mál því menn eru að verða vanir því. HK hefur sýnt að það er hægt að gera frábæra umgjörð innandyra. Önnur leið sem hefur verið rædd er að halda 12 liða deild en hafa þrefalda umferð. Þá erum við að tala um að byrja í febrúar og keyra inn í október. Ég er á því að það gæti verið of mikið. Þetta væri þá fimm leikjum minna en enska deildin er með frá ágúst til maí. Það getur líka haft of miklar afleiðingar að eitt lið fái tvo heimaleiki á móti öðru liði sem er í beinni samkeppni við það um topp/botn/evrópu baráttu. Hvaða leið sem við förum er þó skref fram á við fyrir íslenskan fótbolta. Við einfaldlega þurfum að búa til fleiri alvöru leiki til þess að komast nær nágranna þjóðum okkar.

Heimir Guðjónsson, Valur
Það á að gervigrasvæða þetta allt og spila þrefalda umferð. Ég vil byrja þetta í mars og klára þetta í lok október. Eftir tvær umferðir fær liðið sem er með betri árangur forskot í heimaleikjum.

Arnar Gunnlaugsson, Víkingur R.
Svo sannarlega. Það er ljóst að liðin hér heima þurfa fleiri alvöru leiki. Mér sýnist í fljótu bragði að þriggja umferða 12 liða deild gæti gengið. Gott að umræðan sé komin vel af stað. Aðrir mögurleikar er að auka vægi deildabikars, fjölga leikjum þar og gefa evrópusæti fyrir sigur en mér list best á að fjölga leikjum í íslandsmóti . byrja fyrr og enda seinna. Veðrið mun jú hafa mestu áhrifin sem og hversu stuðningsmenn eru tilbúnir að fara á völlinn í byrjun apríl og í október. Tel samt að eftir að komin sé reynsla að þá mun þetta ekki vera neitt mál og yrði knattspyrnunni hér heima til mikilla framdráttar.

Atli Sveinn Þórarinsson, Fylkir
Við erum hlynntir fjölgun leikja. Sjáum helst fyrir okkur þrefalda umferð, sem mundi byrja ca. 5 vikum fyrr og teygja mótið 2 vikum aftar. Ef veður setti strik í reikninginn mætti spila heila umferð t.d í Egilshöll, þrír leikir á föstudegi og þrír á laugardegi. Svo í næstu umferð mætti spila heila umferð í Kórnum, upp á Skaga eða úti ef veður leyfði.

Brynjar Björn Gunnarsson, HK
Já er klárlega hlynntur fjölgun leikja. Ég myndi vilja sjá fjölgað í deildinni í 14-16 lið, helst 16. Ég myndi vilja byrja mótið fyrr t.d. í byrjun apríl og spila mögulega fram í miðjan október. Að fjölga liðum frekar en að fækka í 10 lið og spila þrefalda umferð er að mínu mati betri kostur. Það munu þá vonandi fleiri Íslenskir og ungir leikmenn fá tækifæri til að spila í efstu deild. Einhverjir munu segja að þetta fyrirkomulag muni veikja deildina, held ég engu síður að til lengri tíma sé fjölgun betri kostur heldur en að hafa færri lið.

Jóhannes Karl Guðjónsson, ÍA
Ég tel það gríðarlega mikilvægt að fjölga í efstu deild. Ég myndi vilja fjölga liðunum í Pepsi-Max um tvö, 14 liða deild og spila tvöfalda umferð. Byrja mótið í byrjun apríl og nota knatthúsin sem við höfum í boði og gervigrasvellina ef grasvellirnir eru ekki klárir. Ég er mótfallinn því að fækka liðum í efstu deild og spila þrefalda umferð. Það yrði að mínu mati röng ákvörðun og myndi gera liðum úti á landi erfiðara fyrir að keppa við stóru liðin á höfuðborgarsvæðinu. Fjölga liðum í efstu deild og efla knattspyrnuna á öllu landinu.

Ágúst Gylfason, Grótta
Season 2021. Spila tvær umferðir í 12 liða deild (22 leiki á lið) sem mætti lengja í báða enda t.d. byrja fyrstu vikuna í apríl og enda um miðjan október. Spila ca. einn leik í viku og koma í veg fyrir 6.umferða hraðmóts fyrirkomulag í byrjun móts. Umspilsleikur (heima og heiman) á milli þriðja neðsta í úrvalsdeild og þriðja sætis í 1.deild.

Ásmundur Arnarsson, Fjölnir
Já ég er hlynntur fjölgun leikja á Íslandsmótinu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fá fleiri alvöru leiki eins og lengi hefur verið rætt. Það hafa ýmsar leiðir verið ræddar en það sem mér hefur fundist mest spennandi er ef við getum útfært það fyrirkomulag sem hefur verið í Danmörku frá tímabilinu 2016-2017. Þá er fyrst spiluð tvöföld umferð en eftir það spila liðin í efri hlutanum sín á milli heima og heiman og keppa um Íslandsmeistaratitilinn og Evrópusæti fyrir 2.sætið. Liðin í neðri hlutanum leika einnig sín á milli heima og heiman og þar er keppt um fallsæti og efsta liðið þar fær svo úrslitaleik við liðið í 3.sæti í efri hlutanum um síðasta evrópusætið. Liðin halda stigum og markatölu úr deildinni en fá svo fleiri leiki við lið í svipuðum styrkleika. Þannig telja allir leikir bæði í deildarfyrirkomulaginu og í úrslitakeppninni. Ég held að þannig fáum við ekki bara fleiri leiki heldur fleiri áhugaverða leiki og meiri spennu heilt yfir í Íslandsmótið.
Athugasemdir
banner
banner
banner