Sveinn Elías Jónsson, leikmaður Þórs í Inkasso-deild karla í knattspyrnu, var mjög vonsvikinn eftir 3-1 tap fyrir Fylki í fyrstu umferð deildarinnar í dag. Þórsarar sáu aldrei til sólar í leiknum og mættu hreinlega ekki til leiks.
Þórsarar byrjuðu leikinn ágætlega og fékk Sveinn meðal annars frábært færi til að koma gestunum yfir en Aron Snær Friðriksson varði vel frá honum. Fylkismenn efldust við það og skoraði Albert Brynjar Ingason áður en Oddur Ingi Guðmundsson bætti við öðru fyrir hálfleik. Andrés Már Jóhannesson bætti við þriðja um miðjan síðari hálfleikinn áður en Orri Sigurjónsson klóraði í bakkann fyrir gestina.
„Við vorum alls ekki nógu góðir. Fylkismenn mættu klárir í leikinn, ekki við. Sanngjarn sigur," sagði Sveinn við Fótbolta.net í dag.
„Við ætluðum að vera þéttir og opna þá, svipað og við höfum gert í æfingaleikjunum. Ég fékk dauðafæri áður en þeir skora en að öðru leiti man ég ekki eftir góðu færi í leiknum. Við fórum ekki eftir því sem var lagt upp fyrir okkur."
Jóhann Helgi Hannesson og Gunnar Örvar Stefánsson fengu ekki mörg færi til þess að moða úr í dag en Sveinn var óánægður með stuðninginn við þá.
„Við vorum ekki að styðja framherjana í dag. Mér fannst alltof langt bil milli framherjana og restina af liðinu. Miðjan og kanturinn voru ekki að styðja vel við Jóa og Gunna upp á topp. Mörkin voru klaufaleg, illa gert hjá okkur varnarlega," sagði hann ennfremur.
„Við virðumst vera í áskrift af þessu að skíta á okkur í fyrsta leik svona síðustu ár og við gerðum það því miður í dag. Við ætluðum að vinda ofan af því en gaman að sjá að ungir leikmenn fá séns í dag og mér fannst þeir standa sig vel. Það eru margir sem þurfa að stíga upp," sagði Sveinn.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir























