Bayern finnst óraunhæft að geta fengið Varane - Werner tilbúinn að hafna United - Sesko til Arsenal? - Klopp hrifinn af Malen - Van de Beek á förum
banner
   mið 07. júní 2023 17:30
Ívan Guðjón Baldursson
Inzaghi: Man City er með nokkra veika bletti
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Simone Inzaghi er gífurlega spenntur fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem lærisveinar hans í Inter spila við Manchester City í Istanbúl á laugardagskvöld.


Hann áttar sig á því að leikmenn Inter þurfa að vera uppá sitt allra besta til að eiga möguleika gegn ógnarsterku liði Man City, sem rúllaði yfir hvert liðið fætur öðru í útsláttarkeppninni. City valtaði yfir Real Madrid, FC Bayern og RB Leipzig á leið sinni í úrslitaleikinn, en gerði 1-1 jafntefli í öllum útileikjunum.

Inzaghi ber mikla virðingu fyrir andstæðingum sínum í úrslitaleiknum, sem hann telur vera besta fótboltalið heims með besta þjálfarann við stjórnvölinn.

„Nútímafótbolti skiptist í tvö tímabil - fyrir og eftir Guardiola. Þetta verður gríðarlega erfiður leikur fyrir okkur. Við munum leggja aðaláherslu á að spila eins og liðsheild, það verður ekki auðvelt að spila gegn besta liði heims sem er stýrt af goðsagnakenndum þjálfara," sagði Inzaghi á fréttamannafundi.

„Þetta er mikilvægasti leikurinn á mínum ferli í fótboltanum og hann er sérstaklega mikilvægur eftir erfitt tímabil fyrir félagið. Við áttum í miklum vandræðum með mannskap þar til fyrir þremur mánuðum, síðan þá hefur gengið gríðarlega vel hjá okkur. Við höfum gert frábæra hluti síðustu mánuði og náum vonandi að toppa í þessum úrslitaleik."

Inter átti vonbrigðatímabil í ítölsku deildinni og endaði í þriðja sæti þar, en liðinu tókst þó að vinna ítalska bikarinn. Liðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu og er með 11 sigra í síðustu 12 leikjum í öllum keppnum. 

„Við munum mæta fullkomnu liði sem er líkamlega sterkt og afburðagott tæknilega. Þeir halda boltanum ótrúlega vel og geta tætt varnir andstæðinga sinna í sundur þegar þeir eru í stuði. Þeir eru samt með nokkra veika bletti..."

Úrslitaleikurinn verður spilaður laugardaginn 10. júní.


Athugasemdir
banner
banner
banner