Jakob Snær Árnason, leikmaður KA, lá á jörðinni þegar KA menn fögnuðu sigri gegn Val í kvöld. Jakob fór í jörðina í þann mund sem Jóhann Ingi Jónsson flautaði til leiksloka.
Hann ræddi við Fótbolta.net um atvikið eftir leikinn.
Hann ræddi við Fótbolta.net um atvikið eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 1 - 0 Valur
„Það er lítið eftir, Harley (Willard) er með boltann og ég ætla bara hlaupa í gegn, Síðan bara veit ég af mér í jörðinni. Það var einhver þarn sem steig harkalega inn í mig, sá ekki hvort þetta var öxl eða olnbogi. Ég fékk einhvern skurð og hnikk. Ég held að þetta hafi verið óþarfi, verið aðeins meiri vilji í þessu en þurfti að vera."
Blóð var á andliti og treyju Jakobs eftir atvikið. „Ég held ég hafi ekki vankast. Mér er aðallega illt í hálsinum og menn báðu mig um að bíða aðeins áður en ég stæði upp. Ég ætla ekki að grenja yfir þessu, við unnum og maður er ánægður með það. En svona... frekar ósáttur með þetta. Það er bara áfram gakk."
Orri SIgurður Ómarsson, leikmaður Vals, fór í Jakob og gekk svo í burtu frá honum. Stuðningsmenn KA létu Orra heyra það þegar hann svo gekk af velli eftir leik. Í sjónvarpsútsendingu sést atvikið ekki en Jakob sést hins vegar liggja í grasinu eftir lokaflautið.
„Ég held þetta hafi örugglega verið eina atvikið sem við áttumst við í leiknum, veit ekki hvað þetta var. Ég held þetta hafi bara verið þreyta í honum; að hann hafi ekki nennt að elta mig í restina. Þetta var full harkalegt," sagði Jakob.
Dómarar leiksins misstu líklega af atvikinu því engin samskipti áttu sér stað við Orra áður en menn héldu til búningsherbergja.
Jakob ræðir nánar um leikinn, endurkomuna úr meiðslum og breytingu á gengi KA í viðtalinu sem má nálgast í heild sinni efst.
Athugasemdir