Þórður Ingason, markvörður Fjölnis í Pepsi-deild karla, hélt hreinu annan leikinn í röð er liðið vann 1-0 sigur á Breiðablik í annarri umferð deildarinnar í dag en leikið var á Extra-vellinum í Dalhúsum.
Þórður hefur verið lykilmaður í liði Fjölnis síðustu ár en hann átti margar mikilvægar vörslur í dag sem hjálpaði liðinu að ná í þrjú stig.
Hann var að vonum ánægður með sigurinn.
„Það var mikilvægt að fá fyrsta sigurinn á heimavelli, taka þrjú stig og koma okkur inn í mótið. Við hefðum viljað vinna í Eyjum en það tókst ekki svo það var gott að vinna hér," sagði Þórður við fjölmiðla.
„Uppleggið var að vera þéttir, leyfa þeim að vera með boltann og sækja svo á þá. Þetta var örugglega mjög leiðinlegur leikur að horfa á en þeir sköpuðu ekki mikið og við reyndar ekki heldur en við skoruðum markið og það skiptir máli."
Þórður segist ekki vera í besta formi lífsins en að það sé að koma.
„Ég er alls ekki í besta formi lífsins en það er að koma."
Fjölnir hefur einungis gert eitt mark í fyrstu tveimur leikjunum.
„Auðvitað þurfum við að skora meira en sóknarmennirnir taka það auðvitað til sín," sagði hann í lokin og brosti.
Athugasemdir






















