Lars Lagerback, annar af landsliðsþjálfurum Íslands, segir að leikmannahópurinn sé í góðu standi fyrir leikinn gegn Tékkum í undankeppni EM á föstudagskvöld. Ari Freyr Skúlason hefur verið að glíma við meiðsli en hann ætti að ná leiknum á föstudag.
„Ari (Freyr Skúlason) æfði með okkur í gær og læknaliðið er jákvætt. Hann mun æfa í dag og þetta lítur vel út. Að öðru leyti veit ég ekki um nein meiðsli," sagði Lars við Fótbolta.net í dag.
Tékkar höfðu betur 2-1 í fyrri leiknum í nóvember eftir að Ragnar Sigurðsson hafði komið Íslendingum yfir.
„Við byrjuðum leikinn vel en eftir að við komumst yfir þá vorum við of passívir. Við vorum ekki jafn grimmir og ég vil í varnarleiknum. Við gáfum þeim of mikið pláss og tíma og það er eitthvað sem við þurfum að breyta á föstudag."
„Þeir voru betri en við í Plzen við spiluðum ekki okkar besta leik. Við getum spilað betur og ég er viss um að við gerum það á föstudag. Þá eigum við betri möguleika á sigri. Þetta eru tvö góð lið að mætast á föstudag og þetta gæti orðið áhugaverður leikur."
Ísland komst yfir í leiknum í Tékklandi í nóvember en á endanum höfðu Tékkar betur 2-1.
Uppselt varð á leikinn á um það bil hálftíma og búast má við stemningu á Laugardalsvelli á föstudaginn. „Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir í þessari undankeppni sem og í síðustu undankeppninni. Það er mjög gott að spila í Reykjavík,"
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir






















