Það vakti athygli að Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings, stýrði liðinu í 3-1 tapinu gegn Breiðabliki í úrslitum Bose-mótsins á Kópavogsvelli í gær, en Arnar Gunnlaugsson var fjarverandi.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Víkingur R.
Blikar unnu sannfærandi sigur á Víkingum, en Íslands- og bikarmeistararnir voru að hefja undirbúningstímabilið á meðan Blikar eru að klára langt tímabil sitt.
Einstaklingsmistök kostuðu Víkinga í leiknum og sagði Sölvi að það mætti skrifa klaufaskapinn að einhverju leiti æfingaálag síðustu daga.
„Alltaf leiðinlegt að tapa úrslitaleik. Góður leikur og lærðum margt af þessum leik en alltaf leiðinlegt að tapa úrslitaleik.“
„Klaufaskapur í uppspilinu hjá okkur. Við erum í fullu fjöri á undirbúningstímabilinu og erfiðar æfingar akkúrat núna, þannig menn voru kannski þungir í löppunum sem sýndi sig í mörkunum.“
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var ekki á hliðarlínunni í gær, en hann var búinn að skipuleggja frí með fjölskyldunni og því fjarverandi að þessu sinni.
Skagamaðurinn er einn af þremur sem koma til greina í þjálfarastarfið hjá sænska félaginu Norrköping.
„Hann er í fjölskyldufríi fyrir norðan og var löngu búinn að plana það. Ég tók bara þennan leik í hans fjarveru,“ sagði Sölvi sem telur að öll umræða í kringum Arnar og áhuga erlendis hafi ekki áhrif á liðið.
„Nei, við erum ekkert að spá í því akkúrat núna. Við erum á miðju undirbúningstímabili og að undirbúa okkur fyrir næsta tímabil. Það er ekki að hafa nein áhrif á það.“
Víkingar ætla sér að styrkja hópinn frekar á næstunni en liðið er í leit að styrkja bæði vörn og sókn.
„Það eru einhverjar hreyfingar sem munu eiga sér stað. Arnar Borg fór til FH og við munum bæta við einhverjum leikmönnum.“
„Við erum búnir að vera að horfa í það að bæta í vörnina og sóknina,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir