Hægri bakvörðurinn Adam Örn Arnarson hefur staðið sig vel með Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni en þessi ungi leikmaður er nú staddur hér á landi með U21-landsliðinu sem mætir Makedóníu á fimmtudagskvöld.
Fótbolti.net ræddi við Adam á æfingu sem fram fór í Keflavík en framundan er fyrsti leikur liðsins í nýrri undankeppni fyrir EM.
„Það er fínt að vera kominn heim til Íslands, það er tilhlökkun í okkur öllum fyrir því að byrja þennan leik," sagði Adam. „Við erum með mjög gott lið og ætlum okkur að vinna."
„Ef við ætlum að gera eitthvað í riðlinum held ég að það sé nauðsynlegt að taka þrjú stig heima gegn Makedóníu."
„Eftir jól hef ég fengið að spila marga leiki og það er frábær reynsla fyrir mig að spila í efstu deild í Danmörku. Þar er mjög góður bolti og maður lærir mikið," sagði Adam en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir






















