„Við erum auðvitað sáttar við þetta stig þar sem við erum áfram á toppnum. Auðvitað hefði maður alltaf viljað taka þrjú stig á heimavelli en á móti frábæru liði Blika er þetta bara ótrúlega kærkomið stig,” sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir eftir 1-1 jafnteflið við Breiðablik.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 1 Breiðablik
„Við fórum vel eftir gameplani. Þjálfararnir settu þetta vel upp og við hlýddum þeim. Við leyfðum þeim að hafa boltann og mér fannst þær ekkert skapa sér neitt mikið af opnum færum þangað til í endann þar sem þær fá nokkur færi þar sem við náum að henda okkur fyrir boltann og mér finnst það sýna karakter og hugarfar okkar í þessum leik. Við ætluðum okkur að fá allavega stig út úr þessu,” segir Adda sem sagðist aldrei hafa óttast að tapa leiknum.
„Ég vissi að við værum með Hörpu á bekknum og ég vissi að hún ætlaði að koma inn í lokin og þegar maður er með hana og fleiri þá er maður alltaf líklegur til að skora.”
„Þetta er einn besti senter í Evrópu og auðvitað kemur sjálfstraust þegar við fáum hana inn. Hún vinnur samt ekki leikinn fyrir okkur. Við gerum þetta sem lið. Allar. Agla María er frábær. Ana Cate er bakvörður þegar hún skorar þetta mark. Mér finnst þetta magnaður liðssigur.”
Stjarnan hefur verið í miklu meiðslabrasi og hópurinn orðinn heldur þunnur. Adda segir að þó það sé fámennt á æfingum muni Stjarnan alltaf geta stillt upp sterku liði.
„Við náum í lið. Við spilum 11 inná. Það eru ekki margar á æfingu hjá okkur en við spilum alltaf 11. Það kemur 14 ára leikmaður inná hérna í endan og gefur okkur fullt þannig að Stjarnan nær alltaf í lið.”
Sjálf er Adda að glíma við meiðsli en ætlar sér að klára síðustu leiki mótsins.
„Ég er góð í þær 90 mínútur sem ég spila og svo fæ ég aðhlynningu þess á milli. Ég fer í sprautu á miðvikudaginn og vonandi næ ég einhverjum auka krafti þar.”
Hægt er að horfa á allt viðtalið í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir























