Ísak Andri Sigurgeirsson er hluti af U21 landsliðinu sem mætir Tékklandi í fyrsta leik í undankeppni Evrópumótsins á morgun.
Ísak gekk fyrir stuttu í raðir Norrköping í Svíþjóð eftir að hafa staðið sig virkilega vel með Stjörnunni hér heima. Ísak er 19 ára gamall en hann er þriðji Íslendingurinn í röðum félagsins.
„Þetta hefur gengið frábærlega til að byrja með. Ég hef verið að komast inn í hlutina hægt og rólega. Þetta er aðeins annað en Ísland. Maður er aðeins lengur að aðlagast þarna. Það hefur gengið vel," sagði Ísak en hann segir að lífið sem atvinnumaður sé mjög fínt. Hann er byrjaður að læra sænsku og segir að þetta sé að koma hægt og rólega.
Norrköping hefur verið mikið Íslendingafélag í gegnum tíðina en núna eru tveir aðrir Íslendingar hjá félaginu: Ari Freyr Skúlason og Arnór Ingvi Traustason.
„Það er mjög vel hugsað um Íslendinga þarna. Þeir hafa góða reynslu af Íslendingum og fara mjög vel með þá. Það hjálpar mjög mikið að geta talað móðurmálið við einhverja í liðinu. Arnór og Ari hafa hjálpað mér mjög mikið að komast inn í þetta, og Andri (Lucas Guðjohnsen) líka þegar hann var þarna."
Er ekkert eðlilega spenntur
Ísak er núna hluti af U21 landsliðinu en framundan á morgun er leikur gegn Tékklandi. Það er fyrsti leikurinn í undankeppni EM 2025.
„Ég er ekkert eðlilega spenntur fyrir þessu. Þetta verður held ég geggjaður leikur á morgun," sagði Ísak en hann hvetur alla til að mæta á Víkingsvöll á morgun.
„Markmiðið okkar er auðvitað að komast upp úr þessum riðli," sagði hann að lokum en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir