Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 11. nóvember 2020 17:35
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ákvörðun Óla Jó kom Einari Karli á óvart - „Ég hafði ekki hugmynd um þetta"
Einar Karl fagnar við hliðarlínuna.
Einar Karl fagnar við hliðarlínuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Jó var annar af þjálfurum Stjörnunnar á síðasta tímabili en ákvað að hætta í síðustu viku.
Óli Jó var annar af þjálfurum Stjörnunnar á síðasta tímabili en ákvað að hætta í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
„Mér líður ótrúlega vel með að vera orðinn leikmaður Stjörnunnar, er mjög ánægður með skiptin og er mjög spenntur fyrir þessu. Hlakka til að prófa eitthvað nýtt og að byrja æfa þegar það verður leyft."

Svona svaraði Einar Karl Ingvarsson fyrstu spurningu um félagaskipti sín frá Val yfir í Stjörnuna, félagaskiptin voru staðfest í síðustu viku. Hvað var það sem heillaði hann við Stjörnuna?

„Félagið hafði mikinn áhuga á mér og taldi mig geta spilað stórt hlutverk á næstu árum. Mér fannst hópurinn og félagið sjálft líta mjög vel út, Stjarnan mjög stórt félag og það er það sem ég var að sækjast eftir - stórt hlutverk og stórt félag."

Voru mörg félög sem sóttust eftir að fá Einar í sitt lið?

„Já það voru einhver lið. Það voru einhverjar þreifingar en á endanum ákvað ég að velja Stjörnuna sem ég er mjög ánægður með."

Kom mjög á óvart
Á hvaða tímapunkti vissi Einar að hann yrði ekki áfram í Val?

„Það var núna undir lok tímabilsins. Þegar mótið var flautað af var maður samningslaus og ég heyrði svo sem ekkert í Völsurum. Ég ákvað að prófa eitthvað nýtt og fá nýjar áskoranir."

Ólafur Davíð Jóhannesson, Óli Jó, var á þeim tímapunkti annar af þjálfurum Stjörnunnar en seinna í vikunni var tilkynnt að Óli yrði ekki áfram í þjálfarateymi liðsins. Ólafur var þjálfari Einars hjá Val á árunum 2015-2019. Kom ákvörðun Ólafs Einari á óvart?

„Já, þetta var mjög skemmtileg tímasetning. Ég hafði ekki hugmynd um þetta. Ég var búinn að ræða aðeins við Óla og hann var spenntur að fá mig en svo gerist eitthvað í millitíðinni. Þetta kom mér mjög á óvart."

Átti Óli einhvern hlut í þeirri ákvörðun Einars að fara í Stjörnuna?

„Einhvern part af því, já. Hann náttúrulega veit alveg hvað ég get, hefur þjálfað mig áður og hefur örugglega rætt við stjórnina um mig til að segja hvernig karakter ég er. Félagið svo sem vissi alveg hver ég var, svo þetta var held ég ekki bara Óli [sem vildi fá mig] þó það hafi hjálpað að ég hafði verið hans leikmaður lengi. Ég var klárlega spenntur að vera hans leikmaður aftur en svona er þetta og maður stjórnar þessu ekki," sagði Einar Karl við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner