mið 11. nóvember 2020 19:29
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Einar Karl gerir upp tímabilið: Aukaspyrnumarkið vendipunktur
Vendipunktur.
Vendipunktur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistaratitli fagnað.
Íslandsmeistaratitli fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einar vann fimm titla á sex tímabilum.
Einar vann fimm titla á sex tímabilum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Aukaspyrnumarkinu fagnað.
Aukaspyrnumarkinu fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einar er genginn í raðir Stjörnunnar.
Einar er genginn í raðir Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einar Karl Ingvarsson yfirgaf í síðustu viku herbúðir Vals eftir sex tímabil hjá félaginu og gekk í raðir Stjörnunnar. Hann gekk í raðir Vals árið 2014 frá FH þá 21 árs gamall. Hann var í láni hjá Fjölni frá FH fyrri hluta tímabilsins 2014 en eftir að hann gekk í raðir Vals var hann lánaður til Grindavíkur.

Sjá einnig:
Ákvörðun Óla Jó kom Einari Karli á óvart - „Ég hafði ekki hugmynd um þetta"

Á þessum sex tímabilum 2015-2020 varð Einar Karl þrisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með Hlíðarendafélaginu. Hann gerði upp tímann sinn í viðtali við Fótbolta.net.

Ánægður með allt nema spiltímann
Einar tók þátt í fjórtán leikjum í deildinni og skoraði eitt mark. Hvernig fannst Einar tímabilið í ár, bæði heildarmyndin á því og svo frá sínu sjónarhorni?

„Mér fannst þetta mjög gott ár þegar maður horfir á liðið og allt í kringum það. Við spiluðum mjög góðan bolta, skipulagðan og agaðan bolta, mjög góðan varnarleik og ég var ánægður með árið þannig séð þó að ég hafi ekki verið ánægður með spiltímann. Ég byrjaði einhverja þrjá leiki og var ekki ánægður með það. Heimir og Túfa koma mjög vel inn í liðið, við æfðum mjög vel og ég var mjög ánægður með allt annað en spiltímann," sagði Einar Karl.

Stimpluðu það inn að verjast sem lið
Heimir Guðjónsson tók við sem þjálfari liðsins eftir erfitt ár 2019. Srdjan Tufegdzic var Heimi til aðstoðar. Hvað fannst Einari breytast með komu Heimis til félagsins?

„Persónulega fannst mér við aðeins taka varnarleikinn hjá liðinu sem heild í gegn. Við vorum mjög skipulagðir og þegar við vörðumst þá vörðumst við sem lið. Allir voru að verjast saman og gerðum það mjög vel. Allir vissu sín hlutverk og voru samtengdir. Heimir og Túfa stimpluðu það vel inn í hausinn á mönnum að verjast sem heild. Svo erum við með mjög góða leikmenn fram á við og erum með mjög góða fótboltamenn innan liðsins. Þegar við byrjum að sinna þessu lykilatriði í fótbolta, varnarleiknum, þá kemur boltinn og gæðin alltaf með."

Valsliðið 2017 það besta
Einar var beðinn um að horfa til baka á sinn tíma hjá félaginu. Fannst honum Valsliðið 2020 það besta sem hann var hluti af?

„Ég held persónulega að 2017 liðið hafi verið verið það besta af þeim sem ég var hluti af hjá Val."

Ekkert pælt í því sem gerðist í fyrra
Var eitthvað uppgjör á tímabilinu 2019, horft í það sem fór úrskeiðis og svo haldið áfram veginn í kjölfarið að Heimir tók við?

„Ég held að það hafi verið meira þannig að inn kom nýr þjálfari og við höldum áfram frá því, hitt var búið. Það var ekki alveg byrjað á núlli en við næstum núllstilltum okkur og svo bara áfram gakk. Það var æft vel og stíft, eina í stöðunni var að vera ekki að pæla í því sem gerðist í fyrra. Það var að koma nýtt tímabil og við ætluðum að gera eins vel og hægt er sem mér fannst við gera."

Aukaspyrnumarkið ákveðinn vendipunktur
Hvað var uppáhaldsaugnablik Einars á liðnu tímabili?

„Persónulega er þetta mjög auðvelt val. Það var þegar ég skoraði úr aukaspyrnunni á móti Breiðablik þegar við unnum 2-1. Mér fannst það vera vendipunktur, þá fór Valsvélin að malla eftir þann sigur, vona að ég sé ekki að taka of mikið kredit fyrir það. Það var klárlega mitt móment í sumar."

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, talaði einnig um þetta aukaspyrnumark í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag. Hannes sagði það hafa verið einn af vendipunktunum svo Einar er ekki einn um þá skoðun.

Túfa ræddi um aukaæfingar Einars í viðtali eftir leikinn gegn Breiðablik. Leggur Einar mikið upp úr því að taka aukaspyrnur á aukaæfingum?

„Ég æfi mjög mikið aukalega og aukaspyrnur eru eitt af því. Ég mætti jafnvel æfa þær enn meira, maður er ekki á milljón bara í aukaspyrnum. Þegar maður er á aukaæfingum þá er maður að skjóta mikið og það skilar sér alveg."

Skoðaði möguleikann að fara á láni
Einar Karl var orðaður við ÍA í félagaskiptaglugganum í sumar. Var Einar nálægt því að fara til annars félags í glugganum?

„Sko, ég var óánægður með spiltímann og var að skoða hvort ég ætti að fara á lán eitthvað til að spila en svo á endanum var það ekkert að fara gerast svo svarið er eiginlega ekki. "

„Maður hélt bara áfram þó að maður var eitthvað smá óáænægður. Um leið og maður kemur á völlinn og spilar með félögunum þá gleymir maður öllum pirringi og reynir að gera það besta fyrir liðið. Maður hætti þá að pæla í þessu og einbeitti mér að því að standa mig fyrir liðið."


Ómetanleg reynsla
Einar Karl var að lokum beðinn um að gera upp þessi sex tímabil hjá félaginu.

„Við unnum fimm titla á þessum sex árum, þessi tími mótaði mig og gerði mig að betri fótboltamanni. Ég var ekki mikið að spila hjá FH og kom til Vals 21 árs, ekki búinn að festa mig í sessi og ekki búinn að fá stöðugan spiltíma. Valur gerði mig að þeim leikmanni sem ég er í dag."

„Mér fannst þetta frábær ár, þakka Val kærlega fyrir allt og allt gert 100% hjá félaginu. Ég á marga góða vini í Val sem ég eignaðist á þessum árum og sá vinskapur mun endast. Ég er mjög þakklátur fyrir þessi ár og að hafa tekið þátt í öllum þessum titlum, spilað alla þessa leiki, farið í Evrópuferðirnar."

„Þetta er ómetanlegt fyrir mig. Það eru blendnar tilfinningar að þurfa að kveðja en fínt að breyta til og taka nýjum áskorunum, prófa sjálfan sig áfram,"
sagði Einar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner