Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 13. október 2021 20:53
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeild kvenna: Real Madrid of stór biti fyrir Blika
Caroline Möller skoraði þrennu í fyrri hálfleik
Caroline Möller skoraði þrennu í fyrri hálfleik
Mynd: Getty Images
Madrídarliðið fagnar hér marki Möller
Madrídarliðið fagnar hér marki Möller
Mynd: Getty Images
Real Madrid 5 - 0 Breiðablik
1-0 Caroline Møller ('6 )
2-0 Caroline Møller ('20 )
3-0 Caroline Møller ('43 )
4-0 Olga Carmona ('48 )
5-0 Lorena Navarro ('89 )
Lestu um leikinn

Breiðablik tapaði öðrum leik sínum í B-riðli Meistaradeildar kvenna í kvöld en leiknum lauk með 5-0 sigri Real Madrid á Alfredo Di Stefano-leikvanginum í Madríd.

Það tók Madrídarliðið aðeins sex mínútur að gera fyrsta markið. Það var Caroline Möller sem gerði það. Kenti Robles átti frábæra sendingu inn fyrir á Möller, sem átti góða fyrstu snertingu, áður en hún skaut boltanum framhjá Telmu Ívarsdóttur.

Möller var aftur á ferðinni á 20. mínútu. Liðið Athenea del Castillo fór illa með vörn Blika áður en hún kom boltanum inn í teiginn á Lorena Navarro. Hún kom boltanum framhjá Telmu en Kristín Dís Árnadóttir bjargaði á línu. Boltinn datt svo út fyrir Möller sem skoraði af öryggi.

Blikar voru í þvílíkum vandræðum með Madrídarliðið og undir lok fyrri hálfleiks fullkomnaði Möller þrennuna. Navarro og Robles tóku gott spil sín á milli áður en Robles fann Möller í teignum og skoraði hún þriðja mark sitt.

Olga Carmona gerði fjórða marki í upphafi síðari hálfleiks. Hún kom inná sem varamaður í hálfleik og þakkaði traustið með góðu marki eftir sendingu frá Möller.

Navarro rak síðasta naglann í kistu Blika undir lokin. Kristín Dís bjargaði aftur á línu en Navarro var fljót að átta sig og skoraði örugglega.

Telma varði nokkrum sinnum frábærlega í leiknum og hefði sigur Real Madrid getað orðið stærri ef ekki hefði verið fyrir hennar leik og varnarinnar hjá Blikum.

Lokatölur 5-0 fyrir Real Madrid sem er með fullt hús stiga líkt og Paris Saint-Germain eftir fyrstu tvo leikina. Blikar eru enn án stiga en næsti leikur er í nóvember gegn Kharkiv í Úkraínu.
Athugasemdir
banner
banner