„Ég held að það verði meira en tvö lið að berjast um titilinn. Ég held að þetta verði jöfn barátta," sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar um komandi baráttu í Pepsi-deild kvenna.
Stjarnan varð Íslands og bikarmeistari í fyrra og liðið stefnir á að vinna titilinn þriðja árið í röð. „Mér fannst þetta erfitt í fyrra. Þó að allir hafi skrifað titilinn á okkur snemma þá var þetta erfitt alveg til enda."
Ásgerður er nýkominn aftur til Íslands eftir að hafa verið í tvo mánuði á láni hjá Kristianstad í Svíþjóð.
„Mér finnst ég hafa grætt á því að fara þó að þetta hafi verið stuttur tími. Þetta er gríðarlega sterk deild og ég veit ekki hvort við áttum okkur á því hvað er mikill munur á deildunum."
„Það eru fleiri góðir leikmenn úti og þú ert að mæta landsliðsmönnum í hverri einustu stöðu í hverjum einasta leik. Hvert lið er með 16-17 góða leikmenn á meðan flest lið heima eru með 7-12 topp klassa leikmenn.," sagði Ásgerður sem kann betur við búning Stjörnunnar en búning Kristianstad.
„Mér fannst erfitt að vera í rauðum búning. Ég hélt að rautt myndi fara mér betur. Blátt er það sem fer mér best og mér líður best í."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir























