lau 15. janúar 2022 19:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viktor vakið áhuga erlendis - „Vonandi gerist eitthvað"
Viktor Karl Einarsson.
Viktor Karl Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, spilaði sína fyrstu tvo A-landsleiki í þessari viku.

Viktor Karl var stórkostlegur með Breiðabliki síðasta sumar og hefur verið orðaður við félög erlendis.

Við sögðum frá því í desember að danska B-deildarfélagið Lyngby hefði sýnt mikinn áhuga á að fá Viktor Karl, en félagið hafði hins vegar ekki efni á að borga verðmiðann sem Blikar settu á hann.

Eftir tap gegn Suður-Kóreu í dag var Viktor spurður út í það hvort hann væri á leið í atvinnumennsku.

„Ég veit voða lítið. Þetta er tækifæri fyrir mig að sýna mig á þessu sviði, að fá kallið í þessum glugga. Það vonandi gefur eitthvað. Eins og staðan er akkúrat núna, þá veit ég lítið og er lítið að spá í þessu. Vonandi gerist eitthvað," sagði Viktor Karl.

Hvað sagði Óskar Hrafn?
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var spurður út í Viktor Karl á dögunum. Þá sagði hann:

„Auðvitað viljum við líka halda í hann, hann er einn af okkar albestu mönnum, gríðarlega öflugur og góður í þeim helstu hlutum sem skilgreina okkur. Það væri högg að missa hann en á sama tíma er það með hann eins og aðra, ef þeir eru tilbúnir að taka næsta skref þá styðjum við við bakið á þeim og keyrum þá út á flugvöll."

Það er spurning hvort eitthvað gerist á næstu vikum í þessum málum. Ef ekki, þá kemur Viktor til með að vera lykilmaður í liði sem ætlar sér Íslandsmeistaratitilinn.

Sjá einnig:
Viktor Karl eftir fyrsta verkefnið: Gefur manni von
Athugasemdir
banner
banner