„Eftir leikinn mættum við bara liði sem er á toppi deildarinnar og komnir í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Þeir eru með bullandi sjálfstraust og miklu betri en við. Við ætluðum okkur að fá góð úrslit í dag og vera með í leiknum. Við fáum á okkur tvö mörk snemma leiks og erum 3-0 undir í hálfleik. Það kom kafli í 10 mínútur eða korter þar sem við pressum á þá en þeir refsa okkur síðan bara. Við erum fúlir í dag og svekktir með okkar frammistöðu. Við vorum að mæta hörkuliði í dag og áttum ekki breik.“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, eftir 6-0 tap gegn Víkingi Reykjavík í dag.
Lestu um leikinn: Fylkir 0 - 6 Víkingur R.
Var ekki erfitt að koma til baka eftir að lenda 2-0 undir eftir 10 mínútur?
„Það var erfitt á móti sterku liði Víkings en við reyndum eins og við gátum. Við verðum að gleyma þessum leik sem fyrst og undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina.“
Hversu gífurlega mikilvægir leikir eru þetta sem eru framundan?
„Þetta eru gríðarlega mikilvægir leikir. Við gerðum ágætlega í mótinu sjálfu á móti þessum liðum. Við verðum að hreinsa þennan leik úr hausnum okkar sem fyrst og koma klárir inn í þessa keppni. Það er allt hægt og liðin gefast ekki upp fyrr en mótið er búið.“
Theodór Ingi kemur inn á fyrir Fylki í seinni hálfleik en Rúnar var ánægður með hann.
„Ég var mjög ánægður með hann. Hann var stórhættulegur en mátti nýta eitthvað af þessum færum sem hann fékk. Hann gerði ótrúlega vel. Hann var mjög duglegur. “
Er eitthvað jákvætt sem Rúnar tekur út úr leiknum?
„Ég veit ekki hvað skal segja þegar maður tapar 6-0, það er ekki það skemmtilegasta í heimi, eigum við ekki bara að segja sem minnst?“
Viðtalið við Rúnar má sjá í spilaranum hér að ofan.