mið 18. september 2019 09:31
Magnús Már Einarsson
Skúli Jón brotnaði niður eftir FH leikinn
Skúli í leiknum gegn FH í júní.
Skúli í leiknum gegn FH í júní.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Skúli Jón Friðgeirsson, leikmaður KR, er í löngu viðtali í Fréttablaðinu í dag. Hinn 31 árs gamli Skúli Jón er að leggja skóna á hilluna eftir tímabilið en hann hjálpaði KR að tryggja Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Val í fyrrakvöld.

Skúli er sestur á skólabekk í Stokkhólmsháskóla og ætlar að klára mastersnám í markaðsfræði, Skórnir fara því upp á hilluna frægu eftir tímabilið.

Framan af sumri var Skúli frá keppni eftir höfuðhögg sem hann fékk á æfingu í vetur. Um tíma óttaðist hann að fótboltaferlinum væri lokið.

„Það var algjört slys á æfingu. Ég og Arnór Sveinn hlupum á hvor annan á fullri ferð. Sáum ekki hvor annan og vorum meira að segja saman í liði á æfingunni. Skullum alveg svakalega saman og ég dett alveg út og var alveg frá í smá stund. Ég fékk mjög alvarlegan heilahristing sem ég var að fást við í hartnær þrjá mánuði," sagði Skúli í viðtali vði Benedikt Bóas Hinriksson í Fréttablaðinu í dag.

Skúli segist hafa óttast það versta á tímabili. Hvort líf hans yrði þjakað af höfuðverk og hreyfingarleysi. Að lokum náði hann þó að snúa aftur á fótboltavöllinn í leik gegn FH þann 23. júní.

„Þetta var erfiður tími og mánuðirnir langir þannig að þegar ég komst loksins aftur af stað og spilaði fyrsta leikinn minn á móti FH í Kaplakrika þá gekk ég út af, inn í klefa og brotnaði algjörlega niður. Það er langt síðan ég hef grátið svona. En þetta voru gleðitár."

„Mér var svo létt að þetta væri ekki, eins og ég var orðinn hræddur um, að ferillinn væri búinn. Að ná að spila aftur fótboltaleik var ótrúlega stór sigur fyrir mig á þessum tíma. Síðan þá hef ég verið að spila þótt ég hefði viljað spila betur oft á tíðum en síðustu leikir hafa verið fínir og ég er mjög ánægður,"
sagði Skúli við Fréttablaðið.

Smelltu hér til að lesa viðtalið í heild sinni í Fréttablaðinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner