
Það er mikil eftirvænting hjá Vestra enda bikarúrslitaleikur framundan gegn Val á föstudagskvöld. Fyrir tveimur árum fögnuðu Vestramenn á Laugardalsvelli og nú snúa þeir aftur á sama völl.
Vestri vann Aftureldingu í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar fyrir tveimur árum 1-0. Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, telur að sú reynsla muni hjálpa liðinu á í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á föstudagskvöld.
Vestri vann Aftureldingu í úrslitaleik umspils Lengjudeildarinnar fyrir tveimur árum 1-0. Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, telur að sú reynsla muni hjálpa liðinu á í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á föstudagskvöld.
„Ég held að við munum njóta góðs af því að hafa spilað hérna áður. Það er oft erfitt að koma í fyrsta sinn á svona völl og spila leik. Við höfum prófað þetta áður og eigum eftir að njóta góðs af því," segir Elmar.
Það hafa þó orðið talsverðar breytingar á Laugardalsvelli á tveimur árum, sú stærsta er að komið er hybrid gras.
„Ég er búinn að labba út á völl og þetta lítur hrikalega vel út. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við gerum það sama og við gerðum hérna fyrir tveimur árum."
Hvernig er tilhugsunin að mögulega mun Vestri standa uppi með bikarmeistaratitil og Evrópusæti á föstudagskvöld?
„Það er villtur draumur sem maður hefði kannski ekki alveg trúað þegar maður byrjaði í þessu með félaginu. Það er æðislegt að vera kominn á þennan stað og ef svo fer þá eigum við það fyllilega skilið," segir Elmar.
Vestri mun halda sterkt í sín gildi og Elmar telur líklegt að leikurinn verði lokaður.
„Ég held að við eigum eftir að gera það. Í svona leikjum þegar mikið er undir þá á þetta til að vera lokað. Ég býst frekar við því en opnum leik. Valur er með frábært lið, með marga góða leikmenn sem geta klárað leiki upp á sitt einsdæmi. Að sama skapi erum við með leikmenn sem geta mætt því."
Athugasemdir