

'Svo er hin hliðin á teningnum, þetta er eitthvað sem við höfum enga stjórn á og ef þetta á að hafa einhver áhrif á okkur þá verður þetta að vera einhvers konar bensín í hina áttina'
Leiknir vann í gær 1-2 útisigur á PCC vellinum á Húsavík, Breiðhyltingar unnu þar með sinn annan sigur í röð og á sama tíma var Völsungur að fara í gegnum sinn fjórða leik í röð án þess að vinna. Baráttan í Lengjudeildinni er ansi hörð og er deildin gjörsamlega tvískipt. Efstu fimm liðin berjast um toppsætið og efstu sex um að ná allavega umspilssæti. Það eru níu stig á milli Keflavíkur í 6. sætinu og grannanna í Njarðvík í toppsætinu.
Munurinn svo á Völsungi í 7. sætinu og Fylki í botnsætinu eru svo fimm stig. Í lok uppbótartíma í gær átti sér ansi stórt atvik þegar jöfnunarmark Völsungs fékk ekki að standa. Heimamenn voru dæmdir brotlegir þegar boltinn fór í netið eftir hornspyrnu.
Fótbolti.net ræddi við Aðalstein Jóhann Friðriksson, þjálfara Völsungs, í dag.
Munurinn svo á Völsungi í 7. sætinu og Fylki í botnsætinu eru svo fimm stig. Í lok uppbótartíma í gær átti sér ansi stórt atvik þegar jöfnunarmark Völsungs fékk ekki að standa. Heimamenn voru dæmdir brotlegir þegar boltinn fór í netið eftir hornspyrnu.
Fótbolti.net ræddi við Aðalstein Jóhann Friðriksson, þjálfara Völsungs, í dag.
Lestu um leikinn: Völsungur 1 - 2 Leiknir R.
„Leikurinn spilast eins og hann spilast, við fáum á okkur mark á fyrstu mínútu, eftir það erum við hér um bil með öll völd á vellinum þangað til að við jöfnum leikinn í kringum 70. mínútu. Sá kafli fannst mér mjög góður hjá okkur, ekkert fullkomið, en við hefðum getað skorað fleiri mörk á þeim kafla. Stundum er þetta svona, boltinn vill ekki alltaf inn."
„Eftir að við jöfnum kemur aðeins rót á okkur, missum aðeins jafnvægi. Þeir komast aftur yfir, sem svíður svolítið. Eftir það förum við á fullt og reynum að jafna leikinn. Í uppbótartíma ræður rosalega stórt atvik úrslitum í restina, við komum boltanum í netið eftir eitt af mjög mörgum hornum sem við fengum og dómarinn dæmir það af sem, eftir að hafa horft á það aftur, var rangur dómur," segir Alli Jói.
Hvernig er að tækla þannig mótlæti, að mark sem hefur bein áhrif á úrslitin fellur ekki með manni?
„Það er erfitt að sætta sig við það. Ég er ennþá það ungur að svona situr í mér, þetta er þungt. Ég er með mjög mikla réttlætiskennd og þetta brennir. Svo er hin hliðin á teningnum, þetta er eitthvað sem við höfum enga stjórn á og ef þetta á að hafa einhver áhrif á okkur þá verður þetta að vera einhvers konar bensín í hina áttina - þurfum að nota þetta sem orku í að gera betur. Þetta má ekki verða til þess að lemja okkur niður."
Þurfum að hugsa um okkur sjálfa
Hvernig horfir framhaldið við Alla?
„Það er bara tilhlökkun, fjórir leikir eftir, hellingur af fótbolta og mikil barátta. Eftir heimavallartörn eigum við ferðalag til Keflavíkur í næsta leik, þeir koma örugglega særðir til leiks. Það er það næsta sem við erum að undirbúa okkur fyrir, verðum að vera tilbúnir í að tækla það vel. Við getum ekki hugsað lengra en það í bili."
Spáir þú eitthvað í mögulegri fallhættu?
„Ég hef lítið verið að spá í því hingað til, en auðvitað skoðar maður úrslitin og ég held að þau hafi öll dottið í öfuga átt í gær. Það er svo mikið af fótbolta eftir að við þurfum að hugsa um okkur sjálfa, ná í úrslit og bara áfram gakk," segir Alli Jói.
Völsungur 1 - 2 Leiknir R.
0-1 Dagur Ingi Hammer Gunnarsson ('1 )
1-1 Sergio Parla Garcia ('71 )
1-2 Kári Steinn Hlífarsson ('79 )
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Njarðvík | 18 | 10 | 7 | 1 | 42 - 19 | +23 | 37 |
2. Þór | 18 | 11 | 3 | 4 | 42 - 25 | +17 | 36 |
3. Þróttur R. | 18 | 10 | 5 | 3 | 36 - 28 | +8 | 35 |
4. ÍR | 18 | 9 | 6 | 3 | 31 - 19 | +12 | 33 |
5. HK | 18 | 9 | 4 | 5 | 32 - 24 | +8 | 31 |
6. Keflavík | 18 | 8 | 4 | 6 | 38 - 31 | +7 | 28 |
7. Völsungur | 18 | 5 | 4 | 9 | 30 - 40 | -10 | 19 |
8. Grindavík | 18 | 5 | 3 | 10 | 35 - 51 | -16 | 18 |
9. Selfoss | 18 | 5 | 1 | 12 | 20 - 34 | -14 | 16 |
10. Leiknir R. | 18 | 4 | 4 | 10 | 18 - 35 | -17 | 16 |
11. Fjölnir | 18 | 3 | 6 | 9 | 28 - 42 | -14 | 15 |
12. Fylkir | 18 | 3 | 5 | 10 | 25 - 29 | -4 | 14 |
Athugasemdir