Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK var svekktur með jafntefli í leik kvöldsins þegar liðið hans fékk FH í heimsókn. HK komst í 2-1 á 87. mínútu en FH jafnaði leikinn á 91. mínútu.
Lestu um leikinn: HK 2 - 2 FH
„Já úr því sem komið var (þá er þetta svekkjandi). Þegar þú ert yfir, var ekki kominn uppbótartími? Þá er mjög svekkjandi að hafa gert jafntefli."
FH var sterkari aðilinn á löngum köflum í leiknum en Ómar er þó ekki sammála því að HK hafi verið yfirspilaðir í leiknum.
„Mér fannst þeir nú ekki yfirspila okkur eða fá mikið af góðum færum, mér fannst þeir klárlega vera meira með boltan. Ég man ekki eftir því að þeir hafi fengið mikið af góðum færum í fyrri hálfleik þó að þeir hafi verið sterkari aðilinn og það var að of mörgu leiti okkur sjálfum að kenna fannst mér."
Leikurinn var mjög spennandi á loka mínútunum þar sem liðin skiptust á að sækja og vinna leikinn.
„Sérstaklega er þetta full mikið kaos fyrst eftir að við komumst yfir en passlegt þangað til. En já mér fannst við hefðum mögulega átt að gera betur í að láta leikinn bara líða út fannst mér."
Anton Søjberg skoraði bæði mörk HK manna en hann er tiltölulega nýgenginn til liðsins. Ómar segir að hann hefur komið vel inn í liðið.
„Hann hefur bara komið vel inn í liðið. Þetta er náttúrulega bara þriðji leikurinn sem hann tekur þátt í og er bara alltaf að komast í betri og betri takt við leikmannahópinn. Þannig bara frábært fyrir hann að skora 2 mörk í kvöl og vonandi bara verður framhald þar á."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Þar talar Ómar nánar um markmið liðsins og leikmannamál.