banner
   mið 21. september 2022 18:30
Elvar Geir Magnússon
Bale: Verð í frábæru formi á HM
Bale er spenntur fyrir HM í Katar.
Bale er spenntur fyrir HM í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gareth Bale, fyrirliði Wales, segir að hann verði í frábæru formi á HM í Katar. Hann er kominn til Los Angeles FC í Bandaríkjunum eftir að síðustu ár hans hjá Real Madrid einkenndust af meiðslum, óstöðugleika og gagnrýni frá spænskum stuðningsmönnum og fjölmiðlum.

„Mér líður vel hjá nýju félagi, ég hef fundið góðan stuðning frá stuðningsmönnum og ég er að njóta mín. Það er frábært andrúmsloft," segir þessi 33 ára sóknarleikmaður.

„Ég get ekki beðið um meira. Mér var strax tekið opnum örmum og vonandi get ég tekið þetta inn í leikina með Wales. Fjölskyldan er búin að koma sér fyrir og ég er að verða öflugri og komast í betra form.Égætla mér að vera í besta mögulega forminu þegar kemur að HM."

Þrátt fyrir gagnrýnina á Spáni hefur Bale alltaf verið elskaður og dáður í Wales. Hann er markahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar frá upphafi og lék lykilhlutverk þegar liðið komst í undanúrslit á EM 2016. Í sumar skoraði hann markið sem skaut Wales á sitt fyrsta HM síðan 1958 þegar hann skoraði eina markið gegn Úkraínu í úrslitaleik umspilsins.

Fyrsti leikur Wales á HM í Katar verður gegn Bandaríkjunum þann 21. nóvember.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner