Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   fim 23. maí 2024 15:19
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kom úr frystinum og fann sig aftur sem fótboltamaður - Erfið stund á Wembley
'Þetta eru mjög líklega mín bestu ár sem atvinnumaður'
'Þetta eru mjög líklega mín bestu ár sem atvinnumaður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Heilt yfir var þetta góður tími'
'Heilt yfir var þetta góður tími'
Mynd: Getty Images
'Það erfiðasta var hversu mikil vonbrigði þetta voru fyrir stuðningsmennina'
'Það erfiðasta var hversu mikil vonbrigði þetta voru fyrir stuðningsmennina'
Mynd: Getty Images
'Þetta var einhvern veginn úti um allt sem eru kannski mestu vonbrigðin þegar ég horfi yfir tímabilið'
'Þetta var einhvern veginn úti um allt sem eru kannski mestu vonbrigðin þegar ég horfi yfir tímabilið'
Mynd: Getty Images
'Mér leið mjög vel þessi ár sem ég var hérna í Bolton'
'Mér leið mjög vel þessi ár sem ég var hérna í Bolton'
Mynd: Getty Images
'Ég fékk mínútur og áður en ég vissi af þá var ég að spila minn besta fótbolta'
'Ég fékk mínútur og áður en ég vissi af þá var ég að spila minn besta fótbolta'
Mynd: Getty Images
Jón Daði í leik með Millwall. 'Ég var bara týndur'
Jón Daði í leik með Millwall. 'Ég var bara týndur'
Mynd: Getty Images
'Ég fann fyrir trausti frá stuðningsmönnum og klúbbnum í heild sinni. Þá spilar maður mjög vel'
'Ég fann fyrir trausti frá stuðningsmönnum og klúbbnum í heild sinni. Þá spilar maður mjög vel'
Mynd: Bolton Twitter
Jón Daði Böðvarsson er að yfirgefa Bolton eftir tvö og hálft ár með félaginu. Samningur hans við félagið er að renna út og framherjinn kvaddi stuðningsmenn á samfélagsmiðlum í gær. Jón Daði, sem verður 32 ára á laugardaginn, kom til Bolton frá Millwall árið 2022.

„Þetta var í raun samkomulag milli beggja aðila. Það var ekki rökrétt fyrir mig að vera áfram. Þetta var svolítið áfall fyrir félagið að ná ekki að komast upp um deild. Það voru allir mjög bjartsýnir á að það myndi gerast á þessu tímabili. Það fór svo eins og það fór í úrslitaleiknum. Mér var ekki boðinn samningur, en það var rætt um mögulega launalækkun. Mér fannst það ekki rökrétt og því lauk eins og því lauk. Heilt yfir var þetta góður tími,” sagði Jón Daði við Fótbolta.net í dag.

Allir með heiminn á herðum sér
Oxford vann úrslitaleikinn um sæti í Championship. Bolton og Oxford mættust á Wembley og urðu lokatölur 2-0 fyrir Oxford.

„Ég var uppi í stúku, var nýkominn upp úr meiðslum og náði bara að æfa í eina viku með liðinu fyrir leikinn. Ég hefði sennilega þurft aðeins meiri tíma til að vera í hópnum. Horfandi á leikinn úr stúkunni þá sér maður þetta öðruvísi, með yfirsýn yfir allan völlinn. Þetta var bara einfalt, sást að pressan var of mikil á okkur, mikið meiri en á Oxford. Oxford náði rétt svo að koma sér í umspilið og maður sá muninn á þeim og okkur. Hjá þeim var þetta bara dagur til að njóta, engin pressa. Á móti var þetta eins og allir væru með heiminn á herðum sér hjá okkur í þessum leik. Við vorum bara rosalega ólíkir okkur sjálfum. Smá svona „Space Jam effect” ef það er hægt að nota þá líkingu, sem er virkilega erfitt á stóra deginum; möguleiki á að komast upp um deild. Það er mjög erfitt að sjá þann möguleika fuðra upp.”

Áttu marga leiki inni á hin liðin
Bolton ætlaði sér upp úr deildinni á tímabilinu. Bolton endaði í 3. sæti C-deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti í B-deildinni.

„Við vorum rosalega mikið, í gegnum allt tímabilið, rokkandi á milli toppsætanna þriggja. Við lendum svo í því að eiga rosalega mikið af leikjum inni, það lítur rosalega vel út á blaði, væntingarnar miklar, en þetta varð aðeins of mikið leikjaálag. Þetta var rosalega vægðarlaust, deildin er spiluð þétt, en að eiga ofan á það leiki inni gerði okkur ekki auðvelt fyrir. Svo voru líka meiðsli, þannig þetta var rosalega mikið hark fyrir allt liðið. Við náðum aldrei tökum á þessum efstu tveimur sætum. Derby og Portsmouth voru sniðugri, með menn innanborðs sem hafa gert þetta áður. Ég held ákveðið reynsluleysi hafi gert útslagið hjá okkur.”

Alveg fáránlegt dæmi
Af hverju áttuð þið marga leiki inni á hin liðin?

„Það var bæði af því við fórum lengra í bikar og við lentum held ég í þremur leikjum sem var frestað út af veðri, alveg fáránlegt dæmi. Við áttum 4-5 leiki inni á tímapunkti. Þeim leikjum er troðið inn í þegar þétta dagskrá, það var mjög kaótískt og tók mjög á líkamlega fyrir allt liðið.”

„Það er samt ekki afsökun. Þessi mannskapur, þetta lið og sérstaklega þessi klúbbur á að vera í Championship deildinni að minnsta kosti. Fótbolti er ekki alltaf sanngjarnt og þetta gekk ekki upp.”


Erfiðast að sjá vonbrigðin í andlitum stuðningsmanna
Hvernig er að vera uppi í stúku, úrslitaleikur í gangi og þú getur ekki haft nein áhrif?

„Það var virkilega erfitt, sérstaklega af því ég var að vonast eftir því að verða í hópnum - á bekknum að minnsta kosti. Ég var þannig séð ‘fit’, en hann ákvað frekar að veðja á hina sem voru kannski í meiri takti. Ég sýni því alveg skilning. Það var mjög erfitt að vera heill og horfa upp á þetta hrun úr stúkunni. Liðinu vantaði svo mikið einhverja vítamínsprautu, einhverja innkomu frá einhverjum. Ég er ekki að segja að þetta hefði breyst ef ég hefði endilega verið sá sem hefði komið inn, en það vantaði einhvern veginn upp á allt.”

„Það var mjög erfitt að horfa upp í stúku eftir leik og sjá grátandi fólk. Í Bolton er mjög þétt fótboltasamfélag og maður finnur virkilega fyrir því; þegar maður fer út í búð þá vilja allir tala við mann um fótbolta. Það erfiðasta var hversu mikil vonbrigði þetta voru fyrir stuðningsmennina.”

„Það er enginn millivegur í fótbolta. Þú ert annað hvort hátt uppi eða lengst niðri. Það er ekkert jafnvægi í þessu einhvern veginn. Það er það fallega við þetta sport.”


Óstöðugleiki í mínútum inni á vellinum
Jón Daði var spurður út í meiðslin sem hann glímdi við á tímabilinu.

„Þetta tímabil var mjög sérstakt. Ég náði aldrei alvöru skriði. Ég átti góð augnablik hér og þar en ég var alltaf að lenda í litlum meiðslum. Tímabilið einkenndist af óstöðugleika mínútulega séð út af bæði meiðslum og svo var líka mikil samkeppni; fimm framherjar í liðinu. Ég var kannski nokkra leiki í byrjunarliðinu, svo nokkra leiki á bekknum og svo nokkra utan hóps vegna meiðsla. Þetta var einhvern veginn úti um allt sem eru kannski mestu vonbrigðin þegar ég horfi yfir tímabilið.”

„Mjög líklega mín bestu ár sem atvinnumaður"
Jón Daði hélt áfram: „Ég er engu að síður mjög þakklátur fyrir tímann minn hérna. Þetta eru mjög líklega mín bestu ár sem atvinnumaður. Ég fann sjálfan mig virkilega vel hérna, náði að spila minn bolta og tjá mig á vellinum, meira en ég hef kannski áður gert. Mér leið mjög vel þessi ár sem ég var hérna í Bolton.”

Kom úr frystinum og fann sig aftur sem fótboltamaður
Það er sterk tenging milli þess að líða vel hjá félagi og svo spila vel á vellinum.

„Ég kom til Bolton eftir mjög erfiðan tíma í Millwall, tímabil sem var eiginlega algjört frat. Á tímapunkti var ég eitt stórt spurningamerki varðandi hvað ég væri í raun og veru að gera, var bara fastur í frystikistu. Ég var bara týndur.”

„Þegar ég kem í Bolton þá var ég kominn með smá „hef engu að tapa” nálgun: „Hvað er það versta sem getur gerst?” Öll pressa og annað hvarf, ég fann mig aftur sem fótboltamaður og fann að ég var mjög velkominn í klúbbinn.”

„Ég held að það sé mjög ríkt samband milli félagsins og íslenskra leikmanna. Ég fann virkilega fyrir því á þeim tíma. Menn voru mjög þolinmóðir, ég var ekki búinn að spila í marga mánuði. Ég fékk mínútur og áður en ég vissi af þá var ég að spila minn besta fótbolta. Ég fann fyrir trausti frá stuðningsmönnum og klúbbnum í heild sinni. Þá spilar maður mjög vel,”
sagði Jón Daði.

Hann lék alls 94 leiki fyrir Bolton á tveimur og hálfu tímabili. Á liðnu tímabili skoraði hann tíu mörk, á tímabilinu þar á undan skoraði hann átta og á fyrsta hálfa árinu skoraði hann sjö mörk. Bolton var í C-deildinni öll tímabilin.

Jón Daði ræðir í næsta hluta viðtalsins um framtíð sína. Sá hluti birtist seinna í dag.
   22.03.2022 16:30
„Eins og ég sé endurvakinn og er að njóta mín meira en áður fyrr"

   05.12.2021 09:30
„Ég er ekkert í stöðu til að velja mér stað til að vera á"


Athugasemdir
banner
banner