mið 23. júní 2021 14:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Best í 7. umferð: Mætt eftir að hafa stýrt skosku háloftunum
Arna Sif Ásgrímsdóttir (Þór/KA)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif Ásgrímsdóttir var valin besti leikmaður leiksins þegar Valur og Þór/KA gerðu jafntefli á mánudagskvöld. Arna er fyrirliði Þór/KA sem lenti 0-1 undir í leiknum en Margrét Árnadóttir jafnaði leikinn úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Fáir bjuggust við því að Þór/KA myndi fá eitthvað úr leiknum en norðankonur héldu markinu hreinu í seinni hálfleik og náðu í dýrmætt stig.

„Mér fannst hún skara fram úr hjá Þór/KA í dag. Mjög solid varnarlega en Valskonur náðu lítið sem ekkert að gera sóknarlega. Hún var líka góð í að bera boltann upp völlinn," skrifaði Helga Katrín Jónsdóttir í skýrsluna eftir leik.

Arna var í annað sinn í sumar valin í lið umferðarinnar fyrir frammistöðuna og er valin leikmaður umferðarinnar hér á Fótbolta.net.

Arna var á láni hjá Glasgow City í Skotlandi fyrri hluta árs og kom vel inn í liðið hjá liðinu. Glasgow varð skoskur meistari í vor.

„Ég fór út til að fá leiki, til þess að sleppa undirbúningstímabilinu heima og vera búin að spila fullt af góðum leikjum þegar Pepsi Max-deildin byrjar," sagði Arna Sif í viðtali í Heimavellinum í vetur.

„Þau gera rosalega mikið úr því að ég kunni að skalla, það er eins og ég hafi verið að finna upp hjólið sko. Það er liggur við: 'Getur þú kennt okkur'. Það er rosalega fyndið hvað þau gera mikið úr þessu," sagði Arna en miðað var á hana inn á teignum í hornspyrnum Glasgow.

Domino's gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi Max-deild kvenna fær verðlaun frá Domino's í sumar.

Bestar í sumar:
1. umferð - Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
2. umferð - DB Pridham
3. umferð - Murielle Tiernan
4. umferð - Brenna Lovera
5. umferð - Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir
6. umferð - Aerial Chavarin
Heimavöllurinn - Of feimin til að mæta á æfingar, FH ætlar upp og Arna Sif dóminerar skosku háloftin
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner