,,Óhjákvæmilega eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi núna. Það eru margar breytingar og margir leikmenn eru að stíga sín fyrstu spor og þurfa að fá meiri leikreyslu og stærra hlutverk í liðinu," sagði Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari kvenna við Fótbolta.net mótið eftir að hann tilkynnti hópinn sem fer á Algarve mótið.
Margar breytingar eru á hópnum frá því í fyrra en nokkrir leikmenn eru fjarverandi.
,,Það vantar gríðarlega reynda leikmenn. Sif Atladóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir eru þar fremst í flokki. Við erum með mjög unga varnarlínu núna og Sif hefði getað hjálpað þar. Við verðum að vona að þær nái sér sem fyrst því við þurfum á þeim að halda í undankeppni HM," sagði Freyr sem fær núna tækifæri til að leyfa öðrum leikmönnum að spreyta sig.
,,Það er mjög spennandi fyrir okkur að fá að gefa leikmönnum reynslu gegn toppþjóðum við góðar aðstæður. Þær munu gera mistök en við þurfum að hjálpa þeim að læra til þess að byggja upp nýtt lið til framtíðar."
Íslenska liðið mætir Kína, Noregi og Þýskalandi á Algarve mótinu en fyrsti leikur er gegn Þjóðverjum þann 5. mars.
,,Við lítum fyrst og fremst á þetta sem æfingamót og við verðum ekki úrslitamiðuð. Við förum samt auðvitað í alla leiki til að fá góða niðurstöðu. Við erum að spila við Þýskaland í fyrsta leik sem verður mjög erfitt og við verðum að vera með raunhæf markmið."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild.
Athugasemdir























