
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, var ánægður með 1-0 sigur liðsins gegn Stjörnunni í Boganum í Bestu deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 1 - 0 Stjarnan
„Það er bara hamingja með það að hafa unnið mjög sterkt lið Stjörnunnar. Þetta var baráttuleikur, mikið fram og aftur. Mér fannst við ná ágætis stjórn annað slagið," segir Jóhann.
„Það var þreyta komin í okkur í restina en ég er mjög ánægður með að hafa náð að landa þessu og ánægður með að halda hreinu. Það hefur gengið illa að verja markið okkar en við gerðum það nokkuð vel í dag. Það eru jákvæð skref í þessu en við getum gert betur."
Henríetta Ágústsdóttir meiddist í leik gegn Fram á dögunum.
„Hún varð fyrir ljótri tæklingu í síðasta leik en er sterkur karakter. Við erum að stefna að því að hún komi til baka í næsta leik, sem er eftir tvær vikur. Hún er svakalega bólgin ennþá og svo það er ekki alveg komin niðurstaða."
Það er að koma landsleikjahlé í deildinni en þegar Þór/KA fer aftur í gang í júní bíða heldur betur erfiðir leikir.
„Nú tökum við pásunni fagnandi. Þurfum að hlaða batteríin. Leikmenn eru þreyttir. Við eigum svokallaða 'Hell Week' framundan, Þróttur úti, FH í bikar heima og Blikar heima. Þetta eru liðin sem eru að hnykla vöðvana hvað mest í byrjun móts."
Athugasemdir