Al Hilal undirbýr stórt tilboð í Fernandes - Bayern vill Mitoma - Delap og Doak til Everton?
   lau 24. maí 2025 16:22
Brynjar Ingi Erluson
Sunderland upp í úrvalsdeildina eftir mikla dramatík (Staðfest)
Tom Watson fagnar sigurmarkinu dramatíska
Tom Watson fagnar sigurmarkinu dramatíska
Mynd: Sunderland
Mynd: Sunderland
Sheffield Utd 1 - 2 Sunderland
1-0 Tyrese Campbell ('25 )
1-1 Eliezer Mayenda ('76 )
1-2 Tom Watson ('90 )

Sunderland er komið aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir átta ára fjarveru en þetta varð ljóst eftir dramatískan 2-1 sigur liðsins á Sheffield United á Wembley í dag.

Liðin voru að mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildina og voru það Sheffield-menn sem tóku forystuna eftir 25 mínútna leik.

Sunderland átti horn sem var hreinsað frá og fór Gustavo Hamer í svakalegt spretthlaup við varnarmann Sunderland sem hann vann áður en hann lagði boltann á milli tveggja leikmanna og á Tyreese Campbell sem skoraði með því að lyfta boltanum yfir markvörðinn og í netið.

Sheffield United kom boltanum aftur í markið fyrir lok fyrri hálfleiksins er Harrison Burrows skaut boltanum í gegnum pakkann og í netið, en VAR tók markið af vegna rangstöðu.

Það átti eftir að reynast dýrt fyrir Sheffield því í þeim síðari tókst Sunderland að koma til baka.

Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka varði Anthony Patterson frábærlega í marki Sunderland og sex mínútum síðar jafnaði Eliezer Mayenda upp úr gersamlega engu.

Patrick Roberts átti stórkostlega sendingu inn á Mayenda sem hamraði boltanum í þaknetið og staðan jöfn.

Nokkrum mínútum áður hafði Tom Watson komið inn á hjá Sunderland og átti hann eftir að reynast hetja liðsins.

Á fimmtu mínútu í uppbótartíma fengu Sunderland-menn boltann rétt fyrir utan teiginn og var það Watson sem skoraði með hnitmiðuðu lágskoti í hægra hornið og reif sig síðan úr treyjunni í brjáluðum fögnuði.

Sannarlega leikur tveggja hálfleika og er staðreyndin sú að Sunderland er komið aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir átta ára fjarveru en Sheffield verður áfram í B-deildinni.


Athugasemdir