Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 25. nóvember 2022 18:01
Brynjar Ingi Erluson
HM: Hollendingar ósannfærandi í jafntefli gegn Ekvador - Katar er úr leik
Enner Valencia skoraði jöfnunarmark Ekvador
Enner Valencia skoraði jöfnunarmark Ekvador
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Holland 1 - 1 Ekvador
1-0 Cody Gakpo ('6 )
1-1 Enner Valencia ('49 )

Holland og Ekvador skildu jöfn, 1-1, er liðin áttust við í 2. umferð í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Katar á Khalifa-leikvanginum í Doha. Gestgjafarnir í Katar eru úr leik.

Cody Gakpo, einn eftirsóttasti leikmaður heims, kom Hollendingum yfir á 6. mínútu með glæsilegu skoti rétt fyrir utan teig og efst í hornið. Þetta var annað mark hans á mótinu.

Ekvador setti pressu á Hollendinga í kjölfarið og náði að opna svæðin á vængjunum en gekk illa að skapa sér eitthvað af viti. Andries Noppert, markvörður Hollendinga, þurfti einu sinni að hafa fyrir hlutunum en þá átti Enner Valencia skot sem Noppert varði aftur fyrir endamörk.

Pervis Estupinan kom boltanum í netið seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks er hann átti skot sem fór af varnarmanni og í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Jackson Porozo stóð í línu fyrir Noppert og var í rangstöðu og því markið dæmt af.

Ekvador gafst ekki upp. Liðið kom með kraft í síðari hálfleikinn og eftir smá vandræðagang í vörn Hollendinga komst Estupinan í skot sem Noppert varði út í teiginn á Valencia sem skoraði.

Liðið var svo hársbreidd frá því að taka forystu á 59. mínútu. Virgil van Dijk tókst að koma sér fyrir fast skot frá Valencia en boltinn fór þaðan til Gonzalo Plata sem átti hörkuskot í slá og niður. Óheppinn að koma ekki Ekvador yfir.

Ekvador varð fyrir miklu áfalli undir lok leiks er Valencia meiddist og hélt um hné sitt. Hann gat ekki haldið leik áfram og var borinn af velli á börum. Slæmar fréttir fyrir Ekvador.

Liðin náðu ekki að finna sigurmarkið og sættust á 1-1 jafntefli en þetta þýðir það að Katar er úr leik á mótinu. Holland og Ekvador eru bæði með 4 stig en Senegal í 3. sæti með 3 stig. Katar er svo án stiga fyrir lokaumferðina.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner