
FH og Valur skildu jöfn í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar kvenna er liðin mættust í Kaplakrika fyrr í dag. Fyrri hálfleikur leiksins var afar lítið fyrir augað en það voru þó gestirnir að Hlíðarenda sem gengu til búningsherbergja með 1-0 forystu. FH liðið var mun ákveðnara í síðari hálfleik og jafnaði sanngjarnt en tókst ekki að tryggja sér sigur þótt tækifærin hafi vissulega verið til staðar. Guðni Eiríksson annar af þjálfurum FH var til viðtals að leik loknum og var spurður. Var það slakur fyrri hálfleikur sem varð ykkur að falli í dag?
Lestu um leikinn: FH 1 - 1 Valur
„Já ætli það ekki bara, stór hluti af þessu. Leikur tveggja hálfleikja hjá okkur svo sannarlega.Virkilega dapur fyrri hálfleikur og ýmsar ástæður fyrir því sem við náum svo að laga. FH liðið mætti til leiks í seinni hálfleik og það vantaði ekki færin sem við fengum en ef við nýtum þau ekki þá vinnum við ekki leik.“
Tinna Brá Magnúsdóttir markvörður Vals reyndist framherjum FH erfiður ljár í þúfu en Guðni vildi þó meina að sínir leikmenn ættu einfaldlega að gera betur.
„Já hún gerði vel í markinu en í stöðunni ein gegn einni þá vill maður helst að leikmaðurinn með boltann skori. “
Athygli vakti að FH var aðeins með fimm varamenn á bekknum í kvöld. Hópurinn hjá liðinu hefur verið að þynnast að undanförnu líkt og lesa má úr fjölda varamanna.
„Þetta er bara það sem við höfum í dag og það er bara þannig. Það verða þó alltaf ellefu inn á ég get lofað þér því. “
Sagði Guðni en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir