Liverpool vonast til að fá Upamecano - Man Utd tryggir sér táning - De Jong á óskalista Man Utd
   fös 26. september 2025 09:11
Elvar Geir Magnússon
Slot staðfestir að Leoni verði frá í heilt ár - „Erfitt að sjá eitthvað jákvætt“
Leoni og Slot.
Leoni og Slot.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arne Slot stjóri Liverpool staðfesti á fréttamannafundi í morgun að Giovanni Leoni hefði slitið krossband og verði frá í u.þ.b. heilt ár. Þetta er mikið áfall fyrir þennan 18 ára miðvörð sem kom frá Parma í sumar.

Hann meiddist í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool, deildabikarleiknum gegn Southampton, en hann hafði leikið skínandi vel áður en hann fór af velli á börum.

„Hann er ekki á góðum stað því hann sleit krossband sem þýðir að hann verður frá í um eitt ár. Að vera þetta ungur og koma í nýtt land, spila svona vel í fyrsta leik... það er erfitt að sjá eitthvað jákvætt," segir Slot.

„Hann er enn svo ungur og hann á svo mörg ár eftir þegar hann hefur jafnað sig eftir þessi hræðilegu meiðsli."

Leoni er gríðarlega efnilegur varnarmaður og var valinn í ítalska landsliðshópinn í síðasta glugga en lék ekki sinn fyrsta landsleik.

Liverpool er frekar þunnskipað þegar kemur að miðvörðum og bara með þrjá reynda til að nota í hjarta varnarinnar. Ibrahima Konate og Virgil van Dijk eru miðvarðaparið og Joe Gomez varamaður.

Wataru Endo og Ryan Gravenberch geta leyst af í hjarta varnarinnar en Liverpool reyndi að fá inn miðvörð í sumar og var nálægt því að krækja í Marc Guehi frá Crystal Palace.
Athugasemdir
banner