
Keflavík mætir HK á laugardaginn í úrslitaleik Lengjudeildarinnar á Laugardalsvelli. Sigurliðið tryggir sér sæti í Bestu-deildinni á næsta tímabili. Fótbolti.net ræddi við Frans Elvarsson, fyrirliða Keflavíkur, í tengslum við leikinn mikilvæga á laugardag.
„Það er mikil tilhlökkun, það var gaman í fyrra þó svo að úrslitin hafi ekki verið skemmtileg.“
„Ég bjóst við opnum leik í fyrra en hann var ekkert eðlilega leiðinlegur og lokaður þannig ég veit ekki við hverju ég á að búast við. Þeir eru mjög beinskeyttir, með mikinn hraða fram á við. Kannski með einn besta leikmann deildarinnar í Degi Orra Garðarssyni, þannig að þeir eru með mörg flott vopn sem við þurfum að takast á við.“
Tímabilið hjá Keflavík hefur valdið mörgum vonbrigðum. Keflavík var í hættu á að ná ekki umspilssæti fyrir síðasta deildarleik, en eru nú að toppa á réttum tíma.
„Mér finnst tímabilið búið að vera lélegt. Ég hélt fyrir fimm, sex leikjum að við myndum ekki ná umspilssæti. En þá kom viðsnúningur hjá okkur, við komumst á smá skrið. Áttum góðar frammistöður og góð úrslit fylgdu frammistöðunum.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir