Newcastle hefur áhuga á Jóni Degi - Brighton reynir við Summerville - Tilboði Tottenha í Toney hafnað
   þri 28. maí 2024 21:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ótrúlegur dagur og rússíbanareið - „Bara jákvæðar hugsanir og sérstaklega til Mikaels Anderson"
Sverrir fagnaði titlinum með stuðningsmönnum í gær.
Sverrir fagnaði titlinum með stuðningsmönnum í gær.
Mynd: Midtjylland
Fjórði meistaratitill Midtjylland.
Fjórði meistaratitill Midtjylland.
Mynd: Midtjylland
Torgið í Ikast var svona í gær.
Torgið í Ikast var svona í gær.
Mynd: Midtjylland
Mikael er fyrrum leikmaður Midtjylland. Hann og hans samherjar gerðu Midtjylland mikinn greiða á sunnudaginn.
Mikael er fyrrum leikmaður Midtjylland. Hann og hans samherjar gerðu Midtjylland mikinn greiða á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir segir Mikael eiga helling inni hjá sér.
Sverrir segir Mikael eiga helling inni hjá sér.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Nú er bara að halda áfram og reyna gera enn betur á næsta ári'
'Nú er bara að halda áfram og reyna gera enn betur á næsta ári'
Mynd: Getty Images
'Mér fannst á þeim tíma vera kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað nýtt.'
'Mér fannst á þeim tíma vera kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað nýtt.'
Mynd: FCM
Sverrir vann deildina einu sinni og bikarinn tvisvar sem leikmaður PAOK.
Sverrir vann deildina einu sinni og bikarinn tvisvar sem leikmaður PAOK.
Mynd: PAOK - Twitter
'Að mæta bestu liðunum og bestu mönnunum, það eru leikirnir sem þú vilt vera spila'
'Að mæta bestu liðunum og bestu mönnunum, það eru leikirnir sem þú vilt vera spila'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á EM, stóra sviðinu.
Á EM, stóra sviðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir Ingi Ingason varð á sunnudag danskur meistari eftir dramatíska lokaumferð í danska boltanum. Midtjylland, lið Sverris, var í 2. sæti fyrir lokaumferðina, með jafnmörg stig og toppliðið Bröndby.

Midtjylland mætti Silkeborg og á sama tíma mætti Bröndby liði AGF.

„Þetta var ótrúlegur dagur, þvílík rússíbanareið. Við vorum 0-2 undir og Bröndby að vinna. Það var ekki mikil von á því augnabliki," sagði Sverrir Ingi við Fótbolta.net í dag.

„Í hálfleik var jafntefli í hinum leiknum og það gaf okkur smá von. Við náðum að snúa leiknum okkar strax í byrjun seinni hálfleik og vorum eftir tólf mínútur komnir í 3-2. Síðan var þetta eiginlega mjög skrítinn fótboltaleikur. Maður vissi eiginlega ekkert hvað var að gerast í hinum leiknum fyrr en í restina, þá vissum við að AGF væri að vinna. Við vissum ekki hvort að þeirra leikur væri búinn eða neitt svoleiðis."

„Þegar lokaflautið kom þá þurfti maður smá tíma til að átta sig á því hvað hefði gerst, þvílík dramatík. Að vinna titilinn á svona máta er mjög sérstakt og gefur öðruvísi tilfinningu heldur en ef þú kannski vinnur deildina þremur umferðum áður eða eitthvað svoleiðis. Þetta var háspenna fram á lokaflaut, geðveikur dagur."


Sverrir var að vinna sinn fjórða titil á ferlinum. Hann vann bikarinn tvisvar með PAOK í Grikklandi og deildina einu sinni.

„Það var kærkomið að bæta fjórða í safnið. Alltaf gaman að geta unnið og sérstaklega gaman að ná að verða meistari á fyrsta ári í Danmörku. Þetta var mikið afrek, sérstaklega ef horft er í hvar liðið endaði á síðasta ári. Þetta var frábær árangur og gaman að vera partur af þessu."

Leikurinn hjá Midtjylland endaði 3-3 en AGF vann 2-3 útisigur gegn Bröndby sem varð til þess að Midtjylland dugði jafnteflið.

AGF gerði Midtjylland risastóran greiða
Hvaða hugsanir ertu með til AGF í dag?

„Það eru bara jákvæðar hugsanir, og sérstaklega til liðsfélaga míns í landsliðinu, Mikaels Neville Anderson."

„Þessi deild hefur sýnt það í allan vetur að öll lið hafa verið pikka stig af öllum og maður hafði einhvern veginn alltaf von þó að Bröndby væri með markatöluna á okkur. Maður þurfti að trúa og við héldum náttúrulega fyrst að við þyrftum að vinna leikinn, en það endaði á því að jafnteflið var nóg."

„AGF spilaði stórt hlutverk í þessu, þetta var það sem við vonuðumst eftir og þeir heldur betur gerðu okkur greiða þarna."

„Ég hef ekki komist í að senda skilaboð á Mikael, ég sé hann á mánudaginn með landsliðinu og ætli ég þurfi ekki að gera eitthvað fyrir manninn. Hann á allavega helling inni hjá mér núna, það er nokkuð ljóst."


Upp og niður allan tímann
Tímabilið er langt og Midtjylland átti sínar dýfur á tímabilinu, liðið hikstaði á köflum og úrslitakeppnin byrjaði ekki vel.

„Við byrjuðum vel fyrstu 2-3 leikina, svo kom smá dýfa, vorum í Evrópu, margir leikir og við misstum svolítið flugið. Um miðjan október náum við að setja saman mjög góðan kafla, náum að vinna marga leiki í röð og erum á toppnum þegar við förum í jólafrí. Það var mjög mikilvægt, menn byrjuðu virkilega að trúa að þetta væri möguleiki."

„VIð förum inn í umspilið á toppnum, en í fyrri umferðinni vorum við að brasa. Við töpuðum þremur leikjum af fimm í fyrri umferðinni. Eftir skellinn gegn Silkeborg náum við að koma okkur í gang og eigum frábæran lokasprett og náum að loka þessu á endanum sem var geggjað. Þetta var upp og niður allan tímann en á endanum náðum við að vinna þetta sem er það eina sem skiptir máli."


Gaman að fjölskyldan gat verið með
Hvernig var fagnað?

„Leikmenn og fjölskyldur þeirra fögnuðu saman á vellinum, partý og húllumhæ. Í gær fórum við svo inn í Herning og Ikast og fögnuðum með stuðningsmönnum. Það var frábær dagur, sérstaklega gaman að geta gert þetta með fjölskyldunni sem var komin út. Þetta var bara frábær helgi."

Var í stærra hlutverki núna
Gerir maður upp á milli titlana?

„Þessi titill er kannski aðeins öðruvísi en fyrsti titillinn (meistaratitillinn) í Grikklandi. Ég kom þá um mitt mót og spilaði kannski ekkert mikið af leikjum og var ekki eins stórt partur af því og þessu afreki. Það telur auðvitað. Þegar maður tekur mikinn þátt og er að spila stóra rullu, það lifir klárlega með manni og út af því er maður í þessu. Maður vill spila og maður er að reyna vinna. Þetta gerði mikið fyrir mann klárlega."

Voru tilbúnir að taka næsta skref
Þegar þú komst til Midtjylland síðasta sumar, hugsaðir þú þá að þú værir kominn í félag sem er að fara berjast um titlana í Danmörku?

„Klárlega. Þeir voru með skýr sjónarmið. Þessi klúbbur er ungur að árum og hefur afrekað rosalega mikið á stuttum tíma. Þótt tímabilið í fyrra hafi ekki verið frábært hjá þeim (7. sæti), þá hafa þeir verið í toppbaráttu og unnu síðasta deildina 2018 og 2020. Midtjylland hefur komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og menn þar voru og eru tilbúnir að taka næstu skref, vildu spýta í lófana eftir síðasta tímabil. Þetta var klárlega markmiðið þeirra; að vera með samkeppnishæft lið í titilbaráttunni. Það tókst, titillinn í hús. Nú er bara að halda áfram og reyna gera enn betur á næsta ári."

Skemmtilegt fyrirkomulag
Sverrir er vanur úrslitakeppnisfyrirkomulaginu eins og það er í Danmörku. Í Grikklandi er fyrirkomulagið eins: tvöföld umferð í deildarkeppni, deildinni tvískipt og svo spiluð tvöföld umferð um titilinn í efra umspilinu og tvöföld umferð um öruggt sæti í deildinni í neðra umspilinu.

„Þetta eru frábærir leikir til að taka þátt í, ert að spila við topplið í hverri umferð, fullir vellir og mikið undir í hverjum leik. Þetta er virkilega krefjandi en það er klárlega mjög gaman að taka þátt í þessu."

Var kominn tími til að prófa eitthvað nýtt
Ef þú hugsar núna til baka til félagaskiptanna til Midtjylland, er það ljúfari hugsun eftir að þú vannst titilinn?

„Klárlega. Mér fannst á þeim tíma, þegar ég tók þessa ákvörðun að fara til Midtjylland, vera kominn tími fyrir mig að prófa eitthvað nýtt. Ég var spenntur fyrir þessu sem þeir settu á borðið; hvernig þeir sæu framtíðina fyrir sér. Ég vildi bara vera partur af því og taka þátt í því. Við gerðum vel í ár sem er frábært og vonandi getum við haldið því áfram."

Öðruvísi fótbolti en í Grikklandi
Hefur eitthvað komið þér á óvart í danska boltanum?

„Þetta er öðruvísi deild heldur en ég er vanur frá tíma mínum í Grikklandi. Það er öðruvísi fótbolti spilaður hér, þetta er mjög 'physical' deild og rosalega jöfn. Það eru bara tólf lið og allir leikir virkilega krefjandi. Það eru öll lið að taka stig af hvort öðru. Það er mjög gaman að taka þátt í þessu, sérstaklega þegar þú ert kominn í úrslitakeppnina, þar er mjög stutt á milli liðanna."

Sverrir var í risastóru hlutverki í liði Midtjylland, fyrir utan nokkra leiki síðasta haust þar sem hann missti úr vegna meiðsli, og nokkur leikbönn, þá spilaði Sverrir alla leiki og bar fyrirliðabandið í nokkrum leikjum.

„Ég spilaði flesta leiki þegar ég var heill og er nokkuð sáttur. Það var alltaf vitað þegar ég kom inn að þeir vildu fá mig í stórt hlutverk. Það var bara gaman að taka þátt í þessu."

Að spila í Meistaradeildinni er stærsti draumurinn
Sverrir verður 31 árs í ágúst. Á ferlinum hefur hann spilað með Breiðabliki, Viking í Noregi, Lokeren í Belgíu, Granada á Spáni, Rostov í Rússlandi, PAOK í Grikklandi og nú Midtjylland í Danmörku.

Hann var spurður út í staðinn sem hann er á ferlinum í dag, lítur hann svo á að hann eigi ein félagaskipti inni áður en það fer að síga á seinni hlutann?

„Ég er voða lítið að spá í því. Ég samdi til fimm ára í Danmörku, er sáttur þar og fjölskyldan er sátt. Við erum bara mjög ánægð og erum ekkert að spá í neinu öðru eins og staðan er núna. Ég tek bara eitt skref í einu."

„Við erum á leið í undankeppni Meistaradeildarinnar og það væri ótrúlega gaman að fá tækifæri á því að spila í Meistaradeildinni. Það er stærsti draumur leikmanns með félagsliði. Maður fékk að upplifa að vera með landsliðinu á stóra sviðinu; EM og HM. Að vera á stóra sviðinu er geggjað. Að mæta bestu liðunum og bestu mönnunum, það eru leikirnir sem þú vilt vera spila."


Tveir frábærir leikir framundan
Næst hjá Sverri er landsliðsverkefni sem hefst eftir næstu helgi. Framundan eru vináttuleikir gegn Englandi og Hollandi. Hvernig leggst það í Sverri að spila á Wembley?

„Það er næsta skref að koma hausnum þangað. Maður tekur nokkra daga núna, nær sér niður og svo hittir maður strákana í næstu viku og við byrjum að undirbúa leikinn á Wembley. Það eru tveir frábærir leikir framundan, stórar þjóðir og Wembley sögufrægur leikvangur. Þetta verður bara gaman," sagði Sverrir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner