
„Frábær sigur, virkilega öflugur sigur, við höfum verið í smá strögli hérna á heimavelli. Núna búnir að vinna tvo leiki í röð hérna heima og halda loksins hreinu og mér fannst þetta bara virkilega öflug frammistaða hjá okkur og frábær sigur." sagði Jón Þór Hauksson,þjálfari ÍA eftir góðan 4-0 sigur á Þór Akureyri.
Lestu um leikinn: ÍA 4 - 0 Þór
ÍA leitaði mikið upp hægri vænginn í dag og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Gísli Laxdal Unnarsson og Steinar Þorsteinsson voru allt í öllu í sóknarleik liðsins.
„Eins og ég segi, bara halda takti og halda flæði í liðinu. Við erum með Steinar og Gísla sem ná gríðarlega vel saman hægra megin þannig það var svolítið leiðin okkar, sérstaklega í fyrri hálfleik og þar vorum við að komast í gríðarlega góðar stöður bæði upp að endarmörkum inn í vítateig og ósáttur með að hafa ekki skorað mark fyrstu 20.mínuturnar, við vorum að skapa okkur fín færi og fínar stöður trekk í trekk."
„Mér fannst Þórsararnir þéttir, mættu mjög þéttir og öflugir til leiks hérna líka þannig þeir lokuðu svolítið á miðjuspilið. Arnór og Indriði komust ekki jafn mikið í boltann eins og þeir eru vanir og þá þurftum við að finna aðrar leiðir."
Skagamenn eru komnir á flott skrið og er liðið búið að vinna fjóra fótboltaleiki í síðustu fjórum leikjum og var Jón Þór spurður hvað hafi breyst í leik liðsins.
„Það er auðvitað bara eftir því sem mörkunum fjölgar og sigrunum fjölgar þá er auðvitað bara sjálfstraust lykilatriði í því, við ströggluðum aðeins í byrjun og þá náttúrulega vorum við bara að spila í vitlausu veðri og á handónýtum völlum þannig það auðvitað gerði okkur líka erfitt fyrir. Við höfum verið að spila að okkar mati glimrandi fínan fótbolta og við vissum það og töluðum um það."
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér að ofan þar sem Jón Þór ræðir meðal annars Daníel Inga Jóhannesson sem er á leið frá félaginu.
Athugasemdir