Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   þri 29. september 2020 17:48
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: ÍBV úr leik í toppbaráttunni
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurganga Keflvíkinga í Lengjudeildinni hélt áfram er liðið fékk ÍBV í heimsókn í stórleik í dag.

Davíð Snær Jóhannsson kom Keflavík yfir snemma leiks eftir laglega skyndisókn og mistókst Joey Gibbs að tvöfalda forystuna þegar hann brenndi af vítaspyrnu á 40. mínútu.

Gibbs náði frákastinu en lét Halldór Pál Geirsson verja aftur og brunuðu Eyjamenn í skyndisókn sem Gary Martin kláraði með skalla. Keflvíkingar virtust bjarga á línu en markið var dæmt gilt og staðan jöfn í leikhlé.

Heimamenn komust yfir á nýjan leik í upphafi síðari hálfleiks þegar Ari Steinn Guðmundsson kláraði vel útfærða skyndisókn. Eyjamenn reyndu að jafna en heppnin var með Keflvíkingum sem fengu dæmda vítaspyrnu á 64. mínútu sem Frans Elvarsson skoraði úr.

Gary Martin fékk góð færi til að minnka muninn en nýtti ekki. Ari Steinn tvö gul spjöld á þremur mínútum og kláruðu heimamenn leikinn því manni færri. Það sakaði ekki og heldur Keflavík toppsætinu, einu stigi fyrir ofan næstu lið og með leik til góða.

Eyjamenn vonuðust til að komast beint aftur upp í Pepsi Max-deildina en sá draumur er úti í bili.

Sjá textalýsingu

Keflavík 3 - 1 ÍBV
1-0 Davíð Snær Jóhannsson ('7)
1-0 Josep Arthur Gibbs ('40, misnotað víti)
1-1 Gary John Martin ('41)
2-1 Ari Steinn Guðmundsson ('50)
3-1 Frans Elvarsson ('64, víti)
Rautt spjald: Ari Steinn Guðmundsson, Keflavík ('78)

Fram er við hlið Leiknis R. í öðru sæti deildarinnar eftir sigur gegn Vestra. Staðan var markalaus eftir bragðdaufan fyrri hálfleik en Þórir Guðjónsson lífgaði uppá hann eftir leikhlé.

Þórir skoraði fyrra mark sitt aðeins skömmu eftir að hinn hæfileikaríki Fred Saraiva klúðraði dauðafæri. Þórir átti gott hlaup á nærstöngina til að skora eftir sendingu frá Hilmari Frey Bjartþórssyni.

Stundarfjórðungi síðar gerði Þórir seinna markið, í þetta sinn nýtti hann sér klaufagang í vörn Vestra til að skora. Skömmu seinna minnkaði Nacho Gil muninn fyrir Vestra eftir góða fyrirgjöf frá Daníeli Agnari Ásgeirssyni.

Ísfirðingar öðluðust aukna trú við markið og tóku að sækja á mörgum mönnum. Framarar áttu í mestu basli en náðu einhvern veginn að halda út og ná í stigin mikilvægu. Vestramenn óheppnir að jafna ekki í lokin.

Fram á eftir að spila við Þrótt R., Keflavík og ÍBV í lokaumferðum tímabilsins. Þar þurfa þeir bláklæddu helst níu stig til að fara upp um deild.

Sjá textalýsingu

Vestri 1 - 2 Fram
0-1 Þórir Guðjónsson ('58)
0-2 Þórir Guðjónsson ('72)
1-2 Ignacio Gil Echevarria ('76)

Að lokum er komið að Grindavík sem gerði út af við viðureignina gegn Víkingi Ólafsvík á fyrsta stundarfjórðungi leiksins.

Oddur Ingi Bjarnason skoraði eftir 50 sekúndur og tvöfaldaði Sigurður Bjartur Hallsson forystuna með skalla eftir hornspyrnu. Skömmu síðar gerði Guðmundur Magnússon þriðja markið eftir laglegan undirbúning frá Oddi Inga sem lék á þrjá andstæðinga áður en hann lagði boltann á Gumma.

Það róaðist talsvert yfir leiknum eftir þriðja markið og gerðist lítið marktækt. Oddur Ingi sem byrjaði leikinn vel fékk sitt annað gula spjald á 64. mínútu og því þurftu heimamenn að klára leikinn manni færri.

Það gerði ekki til og lokatölur urðu 3-0. Grindavík á enn afar veika von um að stela öðru sæti deildarinnar á lokasprettinum. Víkingur Ólafsvík er í þægilegri stöðu sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Sjá textalýsingu

Grindavík 3 - 0 Víkingur Ó.
1-0 Oddur Ingi Bjarnason ('1)
2-0 Sigurður Bjartur Hallsson ('12)
3-0 Guðmundur Magnússon ('15)
Rautt spjald: Oddur Ingi Bjarnason, Grindavík ('64)

Það tekur tíma fyrir stöðutöfluna að uppfærast.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner