mið 30. nóvember 2022 17:00
Elvar Geir Magnússon
HM: Danir enduðu á botninum og Ástralir fara áfram með Frökkum
Túnis úr leik þrátt fyrir frækinn sigur
Svekktur stuðningsmaður danska liðsins.
Svekktur stuðningsmaður danska liðsins.
Mynd: Getty Images
Ástralir fagna.
Ástralir fagna.
Mynd: Getty Images
Ástralía 1 - 0 Danmörk
1-0 Matthew Leckie ('60 )

Túnis 1 - 0 Frakkland
1-0 Wahbi Khazri ('58 )

Frændur okkar Danir eru úr leik á HM en þeir enduðu í neðsta sæti í D-riðli HM með aðeins eitt stig. Miklar væntingar voru til danska liðsins og niðurstaðan mikil vonbrigði.

Ástralía vann 1-0 sigur gegn Dönum í lokaumferðinni en það var Matthew Leckie sem skoraði eina mark leiksins. Ástralía fer áfram í 16-liða úrslit í annað sinn í sögunni.

Enn og aftur vantaði taktinn í sóknarleik danska liðsins sem fann engar glufur á vörn Ástralíu sem var með hinn hávaxna Harry Souttar sem kóng í hjarta varnarinnar. Martin Braithwaite byrjaði sem fremsti maður hjá Danmörku en var mjög slakur og tekinn af velli á 59. mínútur.

Þrátt fyrir slaka frammistöðu Frakka og tap gegn Túnis þá unnu heimsmeistararnir riðilinn og Túnis er úr leik eftir þessa fræknu frammistöðu.

Didier Deschamps gerði níu breytingar á byrjunarliði Frakklands og óhætt að segja að liðið hafi verið illa samstillt og enginn af þeim sem fékk tækifærið náði að gera eitthvað tilkall til þess að fá stærra hlutverk.

Antoine Griezmann kom af bekknum og skoraði í uppbótartíma en dómarinn dæmdi markið af vegna rangstöðu eftir að hafa farið i VAR skjáinn.

Lokastaðan í D-riðli:
1. Frakkland 6 stig (+3 í markatölu)
2. Ástralía 6 stig (-1)
3. Túnis 4 stig
4. Danmörk 1 stig


Athugasemdir
banner
banner