sun 16. desember 2018 17:51
Ívan Guðjón Baldursson
England: Shaqiri kom af bekknum og kláraði Man Utd
Mynd: Getty Images
Liverpool 3 - 1 Manchester United
1-0 Sadio Mane ('24)
1-1 Jesse Lingard ('33)
2-1 Xherdan Shaqiri ('73)
3-1 Xherdan Shaqiri ('80)

Liverpool tók á móti Manchester United í síðasta leik helgarinnar í enska boltanum.

Gæðamunur liðanna var augljós í dag þar sem heimamenn voru mun betri allan leikinn.

Sadio Mane kom Liverpool yfir eftir glæsilega stoðsendingu frá Fabinho sem lyfti knettinum skemmtilega yfir vörnina. Jesse Lingard jafnaði fyrir gestina eftir mistök Alisson Becker sem varði fyrirgjöf Romelu Lukaku beint fyrir fætur Lingard.

Staðan var jöfn í hálfleik og ákvað Jürgen Klopp að skipta Xherdan Shaqiri inná þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Shaqiri átti eftir að vera hetja heimamanna í leiknum því hann skoraði tvennu á fyrstu tíu mínútunum sem hann var á vellinum.

Bæði mörk Svisslendingsins voru skot sem fóru af varnarmanni og í netið og lítið sem David De Gea gat gert til að koma í veg fyrir tap.

Niðurstaðan er fyllilega verðskuldaður sigur Liverpool sem endurheimtir um leið toppsæti úrvalsdeildarinnar af Manchester City.

Man Utd er í 6. sæti, 19 stigum eftir Liverpool þegar aðeins 17 umferðir eru búnar af tímabilinu.

Þetta var fyrsti úrvalsdeildarsigur Liverpool gegn Man Utd á Anfield síðan 2013.
Athugasemdir
banner
banner
banner