Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 14. ágúst 2019 10:22
Magnús Már Einarsson
Jói Berg: Mjög vandræðalegt ef markið hefði verið tekið af mér
Jóhann Berg fagnar marki sínu um helgina.
Jóhann Berg fagnar marki sínu um helgina.
Mynd: Getty Images
Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson byrjaði nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni vel með því að skora þriðja markið í 3-0 sigri Burnley á Southampton.

Jóhann Berg vann boltann af harðfylgi áður en hann skoraði með góðu skoti í fjærhornið. VAR var tekið í notkun í ensku úrvalsdeildinni og meðal annars var athugað hvort markið hjá Jóhanni hefði verið löglegt.

„Ég lenti í þessu sjálfur um helgina þegar dómarinn tékkaði sérstaklega hvort tæklingin hjá mér, í aðdraganda marksins sem ég skoraði, hefði verið lögleg. Ég fagnaði náttúrlega eins og óður maður og það hefði þess vegna verið mjög vandræðalegt ef þetta hefði verið tekið af mér en sem betur fer gerðist það ekki," sagði Jóhann í viðtali við Bjarna Helgason í Morgunblaðinu í dag.

Jóhann Berg var að glíma við talsverð meiðsli á síðasta tímabili og hann segir að þátttaka Íslands á HM í Rússlandi hafi spilað þar inn í.

„Seinni hluti síðasta tímabils var erfiður fyrir mig en tímabilið þar á undan spilaði ég í raun flestalla leiki. Ég hef tekið eftir því að þegar ég hef farið á stórmót hefur það setið aðeins í mér. Tímabilið eftir EM 2016 var smá ströggl fyrir mig, alveg eins og tímabilið eftir HM 2018."

„Maður veit aldrei í þessum blessaða bolta og það er ekki hægt að ganga að neinu vísu en meiðslalega séð hafa tímabilin eftir síðustu stórmót verið mér erfið. Það er ákveðið álag og það kemur kannski meira niður á manni þegar aðrir leikmenn liðsins fá fulla hvíld. Auðvitað vill maður samt sem áður spila á þessum stórmótum fyrir Ísland og maður þarf kannski aðeins að læra það, eftir þessi mót, hvernig maður nær sér aftur líkamlega,"
sagði Jóhann Berg við Morgunblaðið.

Sjá einnig:
Velja Mahrez bestan - Jói Berg með fjórðu hæstu einkunni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner