fös 23. ágúst 2019 12:35
Elvar Geir Magnússon
Helgi um meint átök við Stefán Loga: Allt gott á milli okkar
Stefán Logi Magnússon.
Stefán Logi Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Menn voru ekki sáttir við hvorn annan en það voru engin átök. Það er allt í góðu milli mín og Stefáns," sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari, Fylkis við Fótbolta.net þegar leitað var viðbragða við umræðu í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.

Í þættinum var fullyrt að markvörðurinn Stefán Logi Magnússon hafi ætlað að ráðast á Helga eftir 2-1 tap gegn FH í Kaplakrika síðasta sunnudag.

Mikael Nikulásson, einn af sérfræðingum þáttarins, sagði að Helgi hefði verið ósáttur við Stefán í fyrra marki FH í leiknum og rifrildi hefði myndast milli þeirra í klefanum eftir leik.

„Helgi var eitthvað að skjóta á hann og skamma hann inni í klefa. Stefán Logi ákvað að svara fyrir sig og varð mjög æstur. Síðan er komið inn í sturtu og átti að róa málin. Þá fer allt á annan endann, Stefán Logi ætlaði hreinlega að ráðast á Helga," sagði Mikael.

Mikael fullyrðir að 2-3 Fylkismenn hefði þurft til að skerast í leikinn og stöðva slagsmál milli Helga og Stefáns Loga.

„Stefán Logi hefur ekki verið sáttur við þessa gagnrýni, það hefur átt að svara með hnefum. Það verður gaman að sjá hvort Stefán Logi spilar næstu leiki," sagði Mikael.

Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður Dr. Football, telur að ekki sé möguleiki á að Stefán muni spila eftir þetta. Hann reiknar með því að hinn nítján ára Kristófer Leví Sigtryggsson muni verja mark Fylkis í komandi leik gegn HK á mánudaginn. Kristófer hefur spilað tvo leiki í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Stefán Logi tók hanskana úr hillunni eftir að Fylkir leitaði til hans þar sem Aron Snær Friðriksson aðalmarkvörður meiddist. Aron mun ekki koma meira við sögu á tímabilinu.

Fótbolti.net leitaði einnig viðbragða Stefáns Loga sem tekur undir orð Helga um að ekkert slæmt sé á milli þeirra.

„Það er jákvætt ef það er ástríða í þessu en þessar sögur eru ekki sannar. Það er bara þeirra í Dr. Football að svara fyrir það hvaðan þetta kemur. Það eru allavega engin vandræði hjá okkur," segir Stefán Logi.

Fylkismenn eru sem stendur í 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner