Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 01. febrúar 2023 12:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Voru ekki látin vita af stórum styrktaraðila frá Sádí-Arabíu
Gianni Infantino, forseti FIFA, heldur áfram að líta illa út.
Gianni Infantino, forseti FIFA, heldur áfram að líta illa út.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótboltasamböndin í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, sem munu halda HM kvenna næsta sumar, hafa ritað bréf til FIFA þar sem þau biðja um skýringu á því hvers vegna ferðamannaiðnaðurinn í Sádí-Arabíu fær að vera styrktaraðili á mótinu sem er framundan.

The Athletic greinir frá þessu en þar segir einnig að fótboltasambandið í Ástralíu sé mjög vonsvikið með það hafa ekkert heyrt frá FIFA áður en þessi ákvörðun var tekin.

Visit Saudi verður einn aðalstyrktaraðilinn á mótinu sem er framundan næsta sumar.

Bonita Mersiades, sem er yfir kvennaboltanum í Ástralíu, segir að það sé mikil hræsni fólgin í slíkum samningi hjá Alþjóðafótboltasambandinu.

„Heimsmeistarakeppni kvenna er enn eitt dæmið um hræsni FIFA og heimsfótboltans þegar kemur að yfirlýstum gildum þeirra á móti því hvaðan peningarnir koma," segir Mersiades og bætir við:

„Annars vegar á yfirlýst stefna að vera sú að virðing sé borin fyrir konum og réttindum LGBTQI, meðal annars, og svo er ekkert hugsað til þess þegar miklir peningar koma frá stofnun sem er fulltrúi þjóðar sem hvorki deilir þessum gildum né virðir þau réttindi."

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa lýst mannréttindabrotum í Sádí-Arabíu sem „ógeðslegum" en samkynhneigð er bönnuð í landinu og þá hafa réttindi kvenna ekki verið í hávegum höfð. Konur í Sádí-Arabíu máttu til að mynda ekki horfa á fótboltaleiki fyrr en árið 2018. Þess ber þó að geta að kvennalandslið Sádí-Arabíu var nýverið sett á laggirnar.

Gianni Infantino, forseti FIFA, og sambandið í heild hafa legið undir mikilli gagnrýni síðustu vikur og mánuði vegna þöggunar sem var í kringum heimsmeistaramótið í Katar er varðar mannréttindabrot þar í landi. KSÍ ákvað í kjölfarið að hætta að styðja við bakið á Infantino.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner