Arsenal leggur fram tilboð - Schick til Englands - Emi á útleið og fer Inzaghi til Sádi?
   sun 01. október 2023 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Boateng aftur til Bayern?
Þýski varnarmaðurinn Jerome Boateng gæti verið að ganga aftur í raðir Bayern München, en þetta segir Florian Plettenberg hjá Sky í Þýskalandi.

Boateng, sem er 35 ára gamall, hefur verið án félags síðan hann yfirgaf Lyon í sumar.

Hann eyddi tíu árum á mála hjá Bayern frá 2011 til 2021, þar sem hann vann þýsku deildina níu sinnum, bikarinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu í tvígang.

Á þeim tíma var hann fastamaður í þýska landsliðinu og talinn með bestu miðvörðum heims, en hann fékk ekki framlengingu á samningi sínum við félagið fyrir tveimur árum og hélt því til Lyon.

Plettenberg greinir frá því að Boateng sé nú talinn líklegur til að skrifa undir hjá Bayern, en Thomas Tuchel, þjálfari liðsins, sér hann fyrir sér sem varaskeifu fyrir þá varnarmenn sem eru fyrir hjá félaginu.

Bayern mun halda áfram viðræðum við Boateng í dag, en varnarlínan er fremur þunnskipuð eftir að hollenski miðvörðurinn Mathijs De Ligt meiddist.
Athugasemdir
banner
banner