
Nýtt tímabil er farið af stað í efstu deild kvenna á Englandi og voru áhugaverð úrslit sem litu dagsins ljós í fyrstu umferð, þar sem Liverpool vann óvænt á útivelli gegn Arsenal fyrir framan metfjölda áhorfenda.
Leikið var á Emirates og mættu 54,115 áhorfendur á völlinn, sem er metfjöldi í ensku Ofurdeildinni.
Stórveldi Arsenal tapaði þó leiknum, þar sem Miriael Taylor skoraði eina markið í upphafi síðari hálfleiks. Heimakonur í Arsenal voru sterkari aðilinn en færanýtingin var ekki nægilega góð.
Manchester United og Manchester City byrja nýtt tímabil á sigrum, þar sem Man Utd lagði Aston Villa á útivelli á meðan Man City hafði betur gegn West Ham United, en Dagný Brynjarsdóttir var ekki í hóp hjá Hömrunum.
María Thorisdóttir var þá í byrjunarliði Brighton og lék allan leikinn í sigri á útivelli gegn Everton.
Leicester hafði betur gegn Bristol City og er stórleikur í gangi þessa stundina, þar sem ríkjandi Englandsmeistarar Chelsea taka á móti Tottenham í Lundúnaslag.
Aston Villa W 1 - 2 Manchester Utd W
Everton W 1 - 2 Brighton W
Arsenal W 0 - 1 Liverpool W
Bristol City W 2 - 4 Leicester City W
West Ham W 0 - 2 Manchester City W
Chelsea - Tottenham Í GANGI
Athugasemdir