Albert Guðmundsson skoraði bæði mörk Genoa sem gerði svekkjandi 2-2 jafntefli við Udinese í Seríu A í dag.
KR-ingurinn hefur fagnað góðu gengi síðustu daga, en hann skoraði í 4-1 sigrinum á Roma í síðustu umferð og fylgdi því á eftir með annarri stórkostlegri frammistöðu.
Albert kom Genoa í forystu á 14. mínútu með stórglæsilegu mark rétt fyirr utan teig áður en Lorenzo Lucca jafnaði metin níu mínútum síðar.
Íslenski sóknarmaðurinn kom boltanum aftur í net Udinese á 28. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Hann var ekki hættur því þrettán mínútum síðar kom annað mark hans eftir gott skot vinstra megin úr teignum og þriðja mark Alberts í deildinni á þessu tímabili.
Genoa var með sigurinn í hendi sér en glutraði honum með sjálfsmarki hins 18 ára gamla Alan Matturro undir lok leiks og lokatölur því 2-2. Genoa er í 12. sæti með 8 stig.
Riccardo Orsolini skoraði þá öll þrjú mörk Bologna í 3-0 sigri liðsins á Empoli. Þetta voru fyrstu þrjú mörk Orsolini í deildinni á þessari leiktíð.
Bologna 3 - 0 Empoli
1-0 Riccardo Orsolini ('21 )
2-0 Riccardo Orsolini ('66 )
3-0 Riccardo Orsolini ('90 )
Udinese 2 - 2 Genoa
0-1 Albert Gudmundsson ('14 )
1-1 Lorenzo Lucca ('23 )
1-2 Albert Gudmundsson ('41 )
2-2 Alan Matturro ('90 , sjálfsmark)
Athugasemdir